Hagnaður Gildis af hlutabréfum í Marel var 3,4 milljarður króna á fyrstu tíu mánuðum ársins. Hagar skiluðu sjóðnum 1,9 milljarði króna í hagnað og Síminn 1,8 milljörðum króna. Ávöxtun á bréfum sjóðsins í Símanum var hlutfallslega sú mesta, eða 45,8 prósent.
Ekkert annað íslenskt hlutafélag hefur skilað Gildi yfir milljarði í hagnað á árinu, þótt Festi, með 800 milljónir króna, komist nálægt því.
Annað árið í röð er mest tap vegna innlendrar hlutabréfaeignar Gildis vegna Icelandair. Frá byrjun árs og til loka október tapaði sjóðurinn 2,8 milljörðum króna á þessu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Ávöxtun Gildis í Icelandair var neikvæð um 81,5 prósent á árinu.
Þetta kom fram i kynningu Davíðs Rúdólfssonar, forstöðumanns eignastýringar Gildis, á fundi sjóðsfélaga og fulltrúaráðs lífeyrissjóðsins sem fram fór á miðvikudag. Auk Davíðs hélt Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, kynningu á stöðu sjóðsins á fundinum.
Gildi var á meðal stærstu eigenda Icelandair fyrir hlutafjárútboð félagsins fyrr á þessu ári með 7,24 prósent eignarhlut. Í ágúst greindi Kjarninn frá því að neikvæð ávöxtun Gildis af fjárfestingunni í Icelandair á tæplega áratug væri 72,4 prósent. Til samanburðar var raunávöxtun af innlendu skráðu hlutabréfasafni sjóðsins í heild sinni um 110,8 prósent yfir sama tímabil. Gildi tók samt sem áður þátt í hlutafjárútboðinu og er í dag stærsti eigandi félagsins með 6,34 prósent eignarhlut. Vert er að taka fram að hlutabréf í Icelandair hafa hækkað nokkuð undanfarna daga.
Hrein eign jókst um 62 milljarða
Í kynningu Árna kom fram að hrein eign samtryggingadeildar Gildis hefði hækkað um 62 milljarða króna á fyrstu tíu mánuðum ársins og hefði staðið í 727 milljörðum króna um síðustu mánaðamót. Hrein raunávöxtun var 7,5 prósent á fyrstu tíu mánuðum ársins. Sú viðbót sem til hefur fallið samanstendur að mestu af 62,8 milljarða króna fjárfestingatekjum og 25,9 milljarða króna iðgjöldum sem greidd hafa verið inn í sjóðinn á tímabilinu. Á móti hefur Gildi greitt út 15,9 milljarða króna í lífeyri á fyrstu tíu mánuðum ársins auk þess sem rekstrarkostnaður nam 927 milljónum króna.
Stærstu eignaflokkar Gildis eru hlutabréf. Þannig voru 28,8 prósent af eignum samtryggingardeildar sjóðsins í erlendum hlutabréfum um síðustu mánaðamót en 18,1 prósent í innlendum.
Þorri tekna Gildis það sem af er ári kemur vegna erlendra fjárfestinga. Erlend hlutabréf haga skilað 31,8 milljarði króna og erlendir skuldabréfasjóðir 8,5 milljörðum króna. Á sama tíma skiluðu innlend hlutabréf 1,3 milljarði króna í tekjur og ríkistryggð skuldabréf 9,1 milljarði króna. Stór hluti af erlenda hagnaðinum er tilkominn vegna gjaldmiðlaáhrifa sem rekja má til veikingar krónunnar það sem af er ári. Af tekjum vegna erlendra hlutabréfa voru til að mynda 93 prósent tilkomin vegna gjaldmiðlaáhrifa.
Samdráttur í húsnæðislánum
Gildi er einn þeirra lífeyrissjóða sem hefur verið nokkuð umsvifamikill í húsnæðislánaútlánum til sjóðsfélaga á undanförnum árum. Á árinu 2015, þegar endurkoma lífeyrissjóðanna inn á þann markað hófst af alvöru, lánaði Gildi alls 2,2 milljarða króna í ný sjóðsfélagslán. Árið 2018, þegar umsvif sjóðsins voru sem mest, lánaði hann 22 milljarða króna í slík lán. Þau tífölduðust því á þremur árum.
Umfangið dróst lítillega saman í fyrra og var 20,6 milljarðar króna. Að hluta til var það vegna þess að Gildi þrengdi lánaskilyrði sín og greip til aðgerða til að draga úr eftirspurn eftir lánum. Í ár hefur sú eftirspurn síðan dregist verulega saman. Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2020 lánaði Gildi 13,3 milljarða króna og nokkuð ljóst að ársniðurstaðan verður töluverður samdráttur frá því í fyrra.
Ástæðuna er að uppistöðu að finna í lægri stýrivöxtum sem hafa leitt til þess að viðskiptabankar landsins bjóða nú upp á mun betri kjör á húsnæðislánum en flestir lífeyrissjóðir, öfugt við það sem verið hefur undanfarin ár.