Samkvæmt þeim breytingartillögum sem meirihluti fjárlaganefndar hefur lagt fram á Alþingi verður afkoma ríkissjóðs árið 2021 neikvæð um tæplega 320 milljarða króna, eða 10,4 af vergri landsframleiðslu. Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihlutans, sem birt voru á vef Alþingis í kvöld.
Þegar fjárlög voru kynnt á fyrsta degi októbermánaðar var gert ráð fyrir 264 milljarða króna halla á næsta ári. Í nefndarálitinu segir að frá þeim tíma sem forsendur frumvarpsin voru ljósar hafi efnahagsframvindan reynst heldur lakari en gert var ráð fyrir. Því hefur enn verið bætt í efnahagsaðgerðir af hálfu stjórnvalda og frekari mótvægisaðgerðir kynntar, sem kalla á aukin fjárútlát.
Samtals er því gerð tillaga um 55,3 milljarða króna hækkun á útgjöldum ríkissjóðs frá því sem áætlað var í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var 1. október. „Þyngst vega 19,8 milljarðar kr. vegna viðspyrnustyrkja og 6 milljarðar kr. vegna framlengingar á hlutabótaleið,“ segir í umfjöllun nefndarinnar.
Með þessum útgjöldum inniföldum er áætlað að útgjöld ríkissjóðs verði 180 milljörðum króna hærri árið 2021 en þau voru á fjárlögum ársins 2020. Hallinn er sem áður segir, áætlaður 320 milljarðar króna.
Sveitarfélög fá lítið fyrir sinn snúð
Í nefndaráliti meirihlutans er vikið að kröfum fulltrúa sveitarfélaga sem komið hafa fram í umræðunni að undanförnu, um aukinn fjárstuðning úr ríkissjóði til þess að mæta áhrifum faraldursins. Meirihluti nefndarinnar segir að það þurfi að hafa í huga að „uppbygging og fjármögnun sveitarstjórnarstigsins er afar frábrugðin því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og víða um Evrópu.“
Því gefi það villandi mynd að bera saman stuðnings ríkissjóðs hér á landi við stuðning annarra landa sem búa við gjörólík kerfi.
„Sveitarfélögin eru fjárhagslega sjálfstæð og samanborið við önnur lönd er stærri hluti tekna þeirra hér á landi í formi lögbundinna tekjustofna en í formi beinna framlaga úr ríkissjóði. Slíkt fyrirkomulag, þar sem sveitarfélögin eru meira og minna háð lögbundnum framlögum, þurfa að stunda sjálfstæða fjármálastjórn og búa í haginn þegar efnahagslífið er í uppgangi til að geta staðið af sér niðursveiflu í hagkerfinu,“ segir meirihluti fjárlaganefndar, sem nefnir að sveitarfélögum sem reiði sig að miklu leyti á ferðaþjónustu hafi þegar verið veittur stuðningur.
„Ríkið mun sitja eftir með skuldabagga sem þyngist um 20% af VLF á milli áranna 2019 og 2021, en á hinn bóginn er gert ráð fyrir að skuldir sveitarfélaga hækki um tæplega 3% af VLF á sama tíma,“ segir meirihluti fjárlaganefndar einnig, um stöðu sveitarfélaga.
Um 140 milljónum meira til RÚV en áætlað var
Samkvæmt meirihlutaálitinu er gerð ein breytingartillaga varðandi fjárútlát ríkissjóðs til fjölmiðla, en hún er sú að gert er ráð fyrir 140 milljóna króna viðbótarframlagi til Ríkisútvarpsins, sökum þess að tekjuáætlun af útvarpsgjaldi hefur verið uppfærð frá því sem miðað var við í frumvarpinu.
Reikna má með því að breytingartillögur við fjárlögin komi til umræðu á Alþingi strax á morgun, fimmtudag.