„Ég er að hafa orð á þessu því ég á sæti í borgarstjórn með Vigdísi Hauksdóttur,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á Facebook í dag, þar sem hann leiðréttir ýkjur sem borgarfulltrúi Miðflokksins hefur borið á borð um kostnað við endurgerð Óðinstorgs.
Dagur segir frá því að kostnaðurinn við torgið nýja í miðborginni, sem heimili hans sjálfs stendur við, hafi verið 60 milljónir króna en ekki heilar 657 milljónir eins og Vigdís Hauksdóttir hefur gefið í skyn.
„Vigdís óskaði eftir tölum um kostnað, ekki aðeins við torgið, heldur líka við framkvæmdir við fjölda gatna allt um kring, þar sem lagnir og veitur eru gríðargamlar og komnar á tíma. Samkvæmt svari fjármálasviðs og umhverfissviðs borgarinnar eru taldar saman tölur vegna framkvæmda við torgið og einnig endurgerð Skólavörðustígs, Óðinsgötu, Spítalastígs, Týsgötu, Lokastígs, Freyjutorgs, Freyjugötu, Bjargarstígs og Óðinsgötu við Freyjutorg,“ skrifar Dagur.
Hann segir borgarráð hafa fengið svarið í morgun. „Óðinstorg sjálft kostaði rúmar 60 milljónir. Vigdís lagði hins vegar saman kostnað við torgið og allar göturnar og fullyrti svo í bókun og nú á facebook að torgið hefði kostað hálfan milljarð. Kannski ætti ég ekki að verja tíma mínum í að eltast við Vigdísi en finnst samt rétt að halda hinu sanna til haga,“ skrifar borgarstjórinn.
Í bókun Vigdísar, sem hún birtir á Facebook, segir: „Flott og dýrt skal það vera á torgi Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Nú liggur endanlegur kostnaður við endurgerð Óðinstorgs og nágrennis fyrir. Verkið kostaði 657 milljónir sem skiptast svo. Reykjavíkurborg reiddi fram 474 milljónir og Veitur 183 milljónir. Minnt er á að Veitur eru í eigu Reykjavíkurborgar,“ segir Vigdís og bætir því við að í öðrum löndum væri þetta flokkað sem „spilling af verstu gerð.“
„Það er ekki það sama að vera Jón eða séra Jón eða vera hægra megin eða vinstra megin á litrófi íslenskra stjórnmála," segir borgarfulltrúi Miðflokksins.Afþakkar allan heiður af endurgerðinni
Dagur segir einnig í færslu sinni að endurgerð torgsins sé ekki honum sjálfum að þakka, þrátt fyrir að Vigdís og Útvarp Saga hafi viljað eigna honum heiðurinn. Hann segir að borgin og borgarbúar geti að hans mati verið stoltir af umbreytingu torgsins.
„Tillaga um að endurvekja og endurgera Óðinstorg var frá Evu Maríu Jónsdóttur sjónvarpskonu í því sem þá hét Miðborgarstjórn. Hún var þar sem fulltrúi íbúa um síðustu aldamót. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fór fyrir umhverfis- og samgönguráði árið 2008 þegar það samþykkti að ráðast í samkeppni um torgið. Verkefnið var eitt af fjölmörgum sem frestaðist eftir hrunið.
Verðlaunatillagan varð síðan frábær - og framkvæmdin ekki síður - og ótal mörgum að þakka, en ekki mér. Ég hef gætt þess að víkja alltaf af fundum þegar fjallað er um nágrenni heimili míns - einsog ég tel að borgarfulltrúum beri að gera, bæði þegar ég hef verið í meiri- og minnihluta,“ segir Dagur.