Fólk á aldrinum 18-24 ára er að færa sig af leigumarkaði og í foreldrahús, samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Rekja má lækkun í vísitölu leiguverðs að hluta til þessa brotthvarfs ungs fólks, en í skýrslunni er einnig leitt að því líkum að aðrir aldurshópar hverfi af leigumarkaði í eigið húsnæði.
Ungir líklegir til að verða fyrir kreppunni
Niðurstöður HMS eru úr könnun sem fyrirtækið Zenter lét gera fyrir stofnunina, en samkvæmt henni fækkar á leigumarkaði í öllum aldurshópum, ef miðað er við breytingarnar á hlutfalli hvers hóps á leigumarkaði milli áranna 2019 og 2020.
Fækkunin er langmest á meðal yngsta aldurshópsins, sem telur fólk á milli 18 og 24 ára, en þeir eru 16 prósentum ólíklegri til að vera á leigumarkaði í ár heldur en þeir voru í fyrra. Á sama tíma er fólk í þessum aldurshópi 18 prósentum líklegri til að búa í heimahúsum heldur en þeir voru í fyrra. HMS telur að líklega megi tengja þessa breytingu við slæmt atvinnuástand þessa aldurshóps vegna samdráttar í ferðaþjónustu og tengdum greinum.
„Aldurshópurinn 25-34 ára er hins vegar að færa sig af leigumarkaði yfir í eigið húsnæði, en greina má tilfærslu í öllum eldri aldurshópum af leigumarkaði yfir í eigið húsnæði, sem er í takt við þróun á fasteignamarkaðnum í kjölfar vaxtalækkana,“ segir einnig í skýrslunni.
Leiguverð lækkar á fermetra
Í heildinni hefur hlutfall fólks á leigumarkaðnum lækkað eftir að faraldurinn skall á í vor, úr tæpum 17 prósentum niður í tæp 14 prósent. Á sama tíma hefur vísitala leiguverðs HMS lækkað á höfuðborgarsvæðinu og víða annars staðar. Í október á höfuðborgarsvæðinu var leigan 1,1 prósenti ódýrari heldur en hún var tólf mánuðum á undan.Hins vegar hefur meðalfjárhæð leigu hækkað á höfuðborgarsvæðinu, sökum þess að fólk leigir nú að meðaltali í stærri íbúðum heldur en áður.