Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Bandalag starfsmanna ríkis og bæjar (BSRB) leggjast gegn frumvarpi fjármálaráðherra um hækkun frítekjumarks og að það myndi ná til arðgreiðslna og söluhagnað félaga. Reykjavíkurborg gerir athugasemd við að frumvarpið gæti minnkað tekjur til sveitarfélaga og leggur til að sveitarfélög þurfi ekki að borga fjármagnstekjuskatt.
Þetta kemur fram í umsögnum um frumvarpið, sem birtar hafa verið á vef alþingis. Umsagnirnar voru alls tíu, en til viðbótar við ASÍ, BSRB og Reykjavíkurborg skrifuðu meðal annars Samtök atvinnulífsins, Kauphöllin og Samtök fjármálafyrirtækja umsögn.
Stofninn minnkaður þar sem skatturinn var hækkaður
Frumvarpið myndi leiða til hækkun frítekjumarks úr 150 þúsund krónum á ári í 300 þúsund krónur á ári, yrði það að lögum. Enn fremur myndu arðstekjur og söluhagnaður félaga sem skráð eru á verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga falla undir þetta frítekjumark.
Í frumvarpinu segir að tilefni og nauðsyn þessarar lagasetningar megi rekja til sáttmála ríkisstjórnarinnar um að hækkun á fjármagnstekjuskatti yrði mætt með minni skattstofni þess. Ríkisstjórnin hækkaði fjármagnstekjuskatt úr 20 prósentum í 22 prósent í byrjun árs 2018, en í viðtali við Kjarnann mánuði fyrr sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að hækkunin væri liður í uppbyggingu á réttlátu skattkerfi.
„Skilningsleysi“ og „brýtur í bága við skynsemi“
Í umsögnum sínum til Nefndasviðs Alþingis leggjast stéttarfélögin BSRB og ASÍ alfarið gegn þessu frumvarpi. Samkvæmt BSRB lýsa ívilnanirnar sem felast í frumvarpinu skilningsleysi á þeim vanda sem ríkið og heimili landsins standa frammi fyrir þessa stundina. Stéttarfélagið bætir einnig við að frumvarpið, sem búist er við að muni kosta ríkið 770 milljónir króna, hættu á ósjálfbærum rekstri ríkissjóðs og að betra væri að ráðstafa skattalækkunum til tekjulægstu hópa samfélagsins.
ASÍ tekur í sama streng og segir frumvarpið helst hagnast tekjuhæstu tíundinni af framteljendum vaxtatekna, þar sem núverandi fyrirkomulag verji 90 prósent þeirra fyrir áhrifum verðbólgu nú þegar. Að mati félagsins brýtur það í bága við almenna skynsemi að létta sköttum af þeim sem eru helst aflögufærir þegar ríkissjóður þarf að þétta öryggisnetið til að aðstoða þá sem hafa farið verst út úr efnahagssamdrættinum.
Vill óbreyttar skatttekjur en ekki borga skattinn
Reykjavíkurborg leggst ekki alfarið gegn frumvarpinu, heldur gerir hún athugasemd við að minni skatttekjur ríkissjóðs gæti leitt til minni tekna til sveitarfélaganna, líkt og Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) fullyrti í umsögn sinni við frumvarpsdrög. Taldi sveitarfélagið þá eðlilegt að ræða hvort og þá hvernig Jöfnunarsjóði sveitarfélaga væri bætt af þessum sökum.
Hins vegar lagði Reykjavíkurborg til að fjármagnstekjuskattur af sveitarfélögum yrði afnuminn og að þeim yrði veitt hlutdeild í tekjum ríkissjóðs af honum. Því til stuðnings nefndi sveitarfélagið að margir einstaklingar og lögaðilar sem þiggja þjónustu sveitarfélagsins greiði oft litla eða enga skatta til þess, en dæmi séu um að sveitarfélög líði mjög fyrir þetta í tekjustofnum sínum.
Tekur ekki afstöðu
Í minnisblaði sem birtist í kjölfar umsagnanna sagðist Efnahags- og viðskiptanefnd fjármálaráðuneytisins ekki ætla að taka afstöðu til athugasemda ASÍ, BSRB og Reykjavíkurborgar, þar sem þær voru sagðar vera almenns eðlis.