„Fallegustu minningarnar snúast gjarnan um fjölskyldu og vini og það sem raunverulegu máli skiptir í stóra samhenginu vill nú stundum gleymast. Því miður er það nefnilega þannig að jólin eru áhyggjuefni fyrir allt of marga á Íslandi. Þótt það sé erfið tilhugsun þá getum við ekki og megum ekki loka augunum fyrir því að hérna býr fjöldi manns við fátækt, fleiri þúsund börn þar á meðal. Þetta fólk getur ekki nýtt sér nauðsynlega læknisþjónustu, ekki sent börnin sín í tómstundir, það þarf jafnvel að neita sér um að kaupa mat og gjafir og það þarf að borga leigu.“
Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær.
Hann bætti við að fátækt væri sem betur fer ekki óumflýjanlegur veruleiki og stjórnvöld gætu haft úrslitaáhrif á hvernig til tækist og hvernig undið væri ofan af þessu. „Við skulum þess vegna í aðdraganda jólanna ekki gleyma þeim sem eiga um sárt að binda, ekki gleyma þeim gildum sem skapa réttlátt samfélag og leggja okkar af mörkum til að uppræta þetta.“
Reynt á hugrekki okkar allra
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ræddi hugtakið hugrekki í ræðu sinni undir sama lið í gær. „Frá því að COVID-faraldurinn skall á í mars hefur reynt á hugrekki okkar allra, vilja til að mæta ógninni sem steðjar að samfélaginu öllu. Það krefst áræðis að hugsa í lausnum og ráðast í fordæmalausar og kostnaðarsamar aðgerðir, en einmitt þá er hugrekkið mikilvægt. Það smitar út frá sér og sameinar fólk.“
Þarna vitnaði hún til skrifa forystu Framsóknarflokksins, „enda er ég svo innilega sammála því að leiðarljós okkar á þessum tímum þarf að vera hugrekki, seigla og úthald. Á Íslandi ákváðu stjórnvöld strax í mars að veita miklum fjármunum til grunnstoða, til að fjárfesta í innviðum og tryggja afkomu fólks. Um 10 prósent af landsframleiðslu hefur verið varið til þessa. Staða ríkissjóðs í upphafi faraldursins er forsenda viðbragðanna. Skuldir voru aðeins um 20 prósent af landsframleiðslu meðan skuldir Bandaríkjanna voru um 100 prósent.
Íslenska hagkerfið hefur síðan alla burði til að ná aftur fyrri stöðu. Markmið stjórnvalda hafa að mestu leyti náðst. Heilbrigðis- og menntakerfið hefur staðist prófraunina og verstu hagspár ekki gengið eftir. En nú þarf áframhaldandi hugrekki, seiglu og úthald til að klára vegferðina og komast örugg í höfn,“ sagði hún.
Ekki sammála að Alþingi hefði sýnt nægilegt hugrekki
Þá sagði Líneik Anna að Alþingi hefði spilað lykilhlutverk í því að skila aðgerðunum áfram og vildi hún hrósa sérstaklega þeim þingmönnum sem mest hefði mætt á í þeirri vinnu.
„Það eru einkum þingmenn í fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og velferðarnefnd sem fjallað hafa um fjölda COVID-mála, þó að engin nefnd hafi verið undanskilin í vinnunni. Að öllum öðrum ólöstuðum tel ég fjárlaganefnd, undir forystu háttvirts þingmanns Willums Þórs Þórssonar, hafa unnið þrekvirki á árinu en segja má að nefndin hafi verið sleitulaust að störfum frá því kreppan skall á okkur í mars. Áfram veginn,“ sagði hún.
Logi vék að ræðu Líneikur Önnu í máli sínu og sagði að þegar kæmi að þessu tiltekna máli er varðar fátækt þá hefði Alþingi því miður ekki sýnt nægilegt hugrekki. „En það skulum við svo sannarlega að gera.“