Ríkisendurskoðun telur Vinnumálastofnun ekki enn hafa hrint af stað ásættanlegu eftirliti með hlutabótaleiðinni sem tryggir það að hún fari til þeirra fyrirtækja sem þurfa á henni að halda. Þetta er í annað sinn sem Ríkisendurskoðun gagnrýnir skort á virku eftirliti Vinnumálastofnunar, en hún gerði það einnig í maí.
Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um vinnumarkaðsaðgerðir á tímum kórónuveiru, sem var birt fyrr í dag. Í henni telur stofnunin að mikilvægt sé að fylgjast með hvort greiðslur úr ríkissjóði í formi styrkja eða lána séu í samkvæmi við markmið og skilyrði þeirra laga sem gilda, en samkvæmt henni er slíkt eftirlit mislangt komið.
Eftirliti komið á með fjölda aðgerða...
Að mati stofnunarinnar er mikilvægt að umsjónaraðilar úrræðanna skipuleggi vel með hvaða hætti þeir munu haga sínu eftirliti þegar nauðsynleg gögn liggja fyrir og að eftirlitið fari fram hið fyrsta. Sem dæmi um slíkt nefnir Ríkisendurskoðun að komið hafi verið á samtímaeftirliti í rafrænu umsóknarkerfi við úthlutun lokunarstyrkja, launa á uppsagnarfresti og launa í sóttkví. Enn frekar er minnst á Ferðamálastofu, sem hefur hafið eftirlit með ráðstöfun lána
...en ekki hlutabótaleiðinni
Hins vegar segir Ríkisendurskoðun að Vinnumálastofnun hafi ekki henn hrint af stað ásættanlegu eftirliti með hlutabótaleiðinni, ef frá er talið eftirlit með því hvort fyrirtæki uppfylli skilyrði um ótakmarkaða skattskyldu hér á landi og skilyrði um starfsemi þeirra.
Ríkisendurskoðun benti á í skýrslu sinni í maí 2020 að mikilvægt væri að tryggja virkt eftirlit með úrræðinu þegar í stað. Í nýju skýrslunni sinni gagnrýnir stofnunin að slíkt eftirlit skuli ekki enn hafa komið í framkvæmd með ásættanlegum hætti, og væri það sérstaklega athugunarvert í ljósi þeirra fjármanna sem hér væru undir.
Heildarkostnaður við hlutabótaleiðina nam um 21 milljarði króna í lok októbermánaðar síðastliðins. Fjármálaráðuneytið áætlar að alls muni fara 22 milljarðar króna úr ríkissjóði vegna aðgerðarinnar í ár, samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram í síðasta mánuði.
Ríkisendurskoðun fer einnig yfir það í skýrslunni að hópur fyrirtækja ákvað að endurgreiða hlutabótaleiðina eftir að í ljós kom að þau höfðu nýtt sér úrræðið þrátt fyrir að búa við traustan efnahag og öflugan rekstur. Alls námu endurgreiðslur um 240 milljónir króna í október síðastliðnum.