Síldarvinnslan fékk 16 milljón króna styrk úr Matvælasjóði vegna verkefnis um nýtt þráarvarnarefni og stöðugleika makrílmjöls þegar úthlutað var í fyrsta sinn úr sjóðnum í vikunni. Hún fékk líka 22,6 milljónir króna úr sjóðnum vegna verkefnis um vinnslu próteins úr hliðarstraumum makríls og er á meðal samstarfsaðila Matís í verkefni um að vinna verðmæt efni úr hliðarstraumum þörungavinnslu sem fékk 24,9 milljónir króna úr Matvælasjóði. Samanlagt fengu því verkefni sem Síldarvinnslan kemur að 63,5 milljónir króna af þeim 480 milljónum króna sem sjóðurinn úthlutaði, eða 13,2 prósent þess fjár sem úthlutað var.
Alls fengu sex verkefni yfir 20 milljón króna styrk. Til viðbótar við þau tvö sem talin er upp hér að ofan fékk Matís líka 22,5 milljónir króna vegna verkefnis sem snýr að hákarlaverkun og 22 milljónir króna vegna verkefnis sem snýst um streitu laxfiska. Matís, sem er opinbert hlutafélag sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðið, fékk alls 102,7 milljónir króna úr Matvælasjóði í fyrstu úthlutun hans, eða 21,4 prósent alls þess sem úthlutað var.
Í stjórn Matvælasjóðs, sem ákveður hvert styrkirnir fara, situr meðal annars Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. Auk hennar sitja í sjóðnum Gréta María Grétarsdóttir, sem er formaður sjóðsins, Karl Frímannsson og Gunnar Þorgeirsson, sem er tilnefndur af Bændasamtökum Íslands.
Alls fengu 62 verkefni styrk í þessari fyrstu úthlutun sjóðsins, en alls bárust 266 umsóknir um styrki upp á samtals 2,7 milljarða króna.
Umfangsmikill rekstur
Samanlagt fóru því 141,3 milljón króna, eða 29,4 prósent af öllu því fé sem úthlutað var til verkefna í fyrstu úthlutun Matvælasjóðs til opinbera hlutafélagsins Matís og Síldarvinnslunnar.
Árlegar tekjur Matís, sem hefur þann tilgang að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla, koma frá þjónustusamningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, frá erlendum sjóðum og fyrirtækjum, frá innlendum sjóðum og öðrum opinberum aðilum og innlendum fyrirtækjum. Alls seldi Matís þjónustu fyrir tæplega 1,7 milljarð króna í fyrra. Þar af komu 399,5 milljónir króna vegna áðurnefnds þjónustusamnings við ráðuneytið.
Á eigið fé upp á 46 milljarða
Síldarvinnslan ehf. átti eigið fé upp á 360,5 milljónir dala um síðustu áramót. Á meðalgengi síðasta árs gerir það 44 milljarða króna en á gengi dagsins í dag er eigið fé um 46 milljarðar króna.
Rekstrarhagnaður Síldarvinnslunnar á síðasta ári var tæplega átta milljarðar króna á gengi dagsins í dag og endanlegur hagnaður eftir skatta um fimm milljarðar króna. Eigið féð var, líkt og áður sagði, um 45 milljarðar króna.
Síldarvinnslan heldur beint á 5,2 prósent af öllum úthlutuðum afla. Auk þess heldur Bergur-Huginn, sem er að öllu leyti í hennar eigu, nú á á um 2,7 prósent alls kvóta. Þá á Síldarvinnslan 75,20 prósent hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf., sem heldur á 0,62 prósent af úthlutuðum kvóta.
Stærsti einstaki eigandi Síldarvinnslunnar er Samherji hf. með 44,6 prósent eignarhlut. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, á 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni.
Samherji á því, beint og óbeint, 49,9 prósent í Síldarvinnslunni. Þorsteinn Már Baldvinsson, annar forstjóri Samherja, er stjórnarformaður félagsins. Síldarvinnslan á líka 0,92 prósent í sjálfri sér, sem þýðir að samanlagður eiginhlutur hennar og eignarhluti stærsta eigandans fer nálægt 51 prósenti.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 prósent hans.
Samanlagt er þessi blokk Samherja og Síldarvinnslunnar með að minnsta kosti 17,5 prósent aflahlutdeild.