Alls eru upplýsingafulltrúar í níu stöðugildum hjá Reykjavíkurborg en þar af er einn í 80 prósent starfshlutfalli. Þetta kemur fram í svari borgarinnar við fyrirspurn Kjarnans.
Í svarinu segir að sex hafi verið í upplýsingadeild/samskiptateymi sem starfi þvert á fagsviðin og séu tveir hjá umhverfis- og skipulagssviði, þar af annar í 80 prósent starfi og einn nýlega ráðinn í 100 prósent starf hjá velferðarsviði.
Árlegur launakostnaður við þessi níu stöðugildi er um 102 milljónir, að því er fram kemur í svarinu.
Auglýsa eftir teymisstjóra samskiptateymis
Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að borgin leiti nú að einstaklingi til að stýra samskiptateymi á þeirra vegum. „Samskiptateymi er staðsett á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og fer með faglega forystu varðandi framsækni og framþróun í upplýsingagjöf, vöktun, miðlun og samskiptum borgarinnar við starfsfólk, íbúa, fjölmiðla og gesti borgarinnar og vinnur að því að Reykjavíkurborg sé í fararbroddi á þessu sviði. Í samskiptateymi starfa sérfræðingar á sviði upplýsingamála,“ segir í auglýsingunni.
Helstu verkefni og ábyrgð sem felst í starfinu er innleiðing og eftirfylgni samskipta- og upplýsingastefnu borgarinnar, stjórnun og dagleg ábyrgð á starfsemi og rekstri samskiptateymis, fagleg uppbygging og þróun samskiptateymis. Jafnframt á þessi aðili að leiða samráðsvettvang upplýsingafulltrúa innan Reykjavíkurborgar og leiða Reykjavíkurborg inn í „áskoranir í síbreytilegu og fjölbreyttu fjölmiðlaumhverfi“. Enn fremur mun þessi einstaklingur sinna ráðgjöf á sviði samskipta- og upplýsingamála borgarinnar og hafa yfirumsjón með skipulagi og ráðgjöf hvað varðar samskipti við fjölmiðla og almenning.