Flokkur fólksins hefur látið endurhannað merki flokksins og breytt allir ásýnd hans. Í tilkynningu frá Flokki fólksins segir að merki flokksins, litir, leturgerð séu meðal þess sem muni taka breytingum og niðurstaðan sé nýtt heildarútlit á öllu kynningarefni. „Meginmarkmiðið er að flokkurinn haldi áfram að vekja athygli allra á baráttu sinni gegn fátækt og óréttlæti í íslensku samfélagi.“
Aðal litur flokksins verður héðan í frá gulur en merki flokksins var áður blátt, hvítt og rautt. Í tilkynningu segir að liturinn líki „eftir sólinni, er vonarneisti og boð um betri tíma. Hann er nær gildum flokksins sem snúa að velferð og stendur upp úr, hvar sem hann er. Samhliða gula litnum verður svarfjólublár notaður og bleikur þegar á við, en hann er skírskotun í rætur flokksins. Merkið verður áfram friðardúfa en með endurbættu útliti og breyttum vængjum sem mynda tvö „F” sem standa fyrir nafn flokksins. Nýtt, snyrtilegt og auðlesanlegt letur endurspeglar þá hugsjón að Flokkur Fólksins vill tala til allra, ekki síst til þeirra sem eldri eru.“
Eru með tvo þingmenn
Flokkur fólksins, með Ingu Sæland í broddi fylkingar, fékk 6,9 prósent atkvæða í kosningunum 2017 og er minnsti flokkurinn á þingi. Upphaflega voru þingmennirnir fjórir en tveir þeirra, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, voru reknir úr flokknum eftir Klaustursmálið og gengu skömmu síðar til liðs við Miðflokkinn. Flokkurinn hefur sjaldnast mælst inni á þingi á kjörtímabilinu í könnunum en á því varð þó breyting í könnun MMR sem birt var fyrr í desember. Þar mældist fylgið 6,2 prósent.
Tekjur flokksins komu nær einvörðungu úr opinberum sjóðum. Alls nam fjárframlag úr ríkissjóði 62,2 milljónum króna og fjárframlag frá Reykjavíkurborg var tæplega 1,1 milljón krónur. Einu öðru tekjurnar sem Flokkur fólksins hafði á árinu 2019 voru félagsgjöld upp á 295 þúsund krónur.
Safna í digran kosningasjóð
Kostnaðurinn við rekstur flokksins, sem er með tvo þingmenn á þingi og einn fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur, er einungis brot af tekjum hans. Í fyrra kostaði reksturinn alls 22,1 milljón króna og því sat meginþorri þeirrar fjárhæðar sem Flokkur fólksins fékk úr ríkissjóði eftir á bankareikningi hans í árslok. Alls eyddi Flokkur fólksins því um 35 prósent af tekjum sínum í rekstur í fyrra, en lagði afganginn til hliðar til. Svipað var uppi á teningnum árið 2018 þegar hagnaður Flokks fólksins var 27 milljónir króna.
Því átti flokkurinn 65,6 milljónir króna í handbært fé í lok síðasta árs og búast má við að nokkrir tugir milljóna króna bætist við þá upphæð í ár og á því næsta sem munu nýtast í kosningabaráttuna sem er framundan vegna þingkosninga í september 2021.