Yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi segir við Kjarnann að „óstaðfest“ sé hvort hótanir hafi verið settar fram gagnvart Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á Seyðisfirði í dag.
Búið er að ná tali af þeim sem á að hafa sett meintar hótanir fram. Ekki fengust upplýsingar um hvers eðlis meintar hótanir voru eða hvernig þær voru settar fram.
Í frétt Vísis í hádeginu var rakið að Lísa Kristjánsdóttir aðstoðarmaður ráðherra hefði dregið Katrínu til hliðar skömmu áður en hún hugðist koma í útvarpsviðtal í hádegisfréttum Bylgjunnar rétt fyrir kl. 12 á hádegi. Þar sagði að ráðherra hefði svo hafi verið flutt í bakherbergi í ferjuhúsi Smyril Line við höfnina á Seyðisfirði.
Lögregla varðist allra fregna í fyrstu og fjölmiðlamenn lýstu því að nokkur ringulreið hefði verið á staðnum.
Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi sagði í samtali við Kjarnann skömmu eftir kl. 13 að enn væri „óstaðfest“ að um hótanir hafi verið að ræða.
Hann sagði að lögreglu hefðu borist upplýsingar þess efnis að hótanir hefðu borist, en það væri óstaðfest að um hótanir hefði í raun verið um að ræða. Búið væri að ná tali af þeim aðila sem hafi sett meintar hótanir fram.
Katrín Jakobsdóttir er nú ásamt þremur öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar á Seyðisfirði að virða fyrir sér afleiðingar aurskriðnanna sem þar féllu í lok síðustu viku. Nokkrir fjölmiðlar eru með blaðamenn á staðnum og hefur Katrín ekki viljað ræða við þá um þessar meintu hótanir í sinn garð.
Í frétt á vef mbl.is segir að Katrín hafi látið sem ekkert hafi í skorist eftir að þessi atvik komu upp, en þess má einnig geta að um 20 mínútum eftir að henni var kippt til hliðar í fylgd lögreglu fyrir áætlað viðtal við Bylgjuna var hún komin í viðtal í beinni útsendingu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.