Héraðsfréttamiðillinn Austurfrétt birtir í dag tvö SMS-skeyti sem sögð eru frá þeim einstaklingi sem sat í haldi lögreglunnar á Austurlandi, grunaður um hótanir í garð forsætisráðherra. Austurfrétt segist hafa ákveðið að birta bæði SMS skeytin eftir að hafa haft samráð við lögfræðinga og þar sem ekki leiki vafi á uppruna þeirra.
Í fyrra skeytinu frá manninum kemur fram að hann telji að verið sé að handtaka sig af lögreglunni fyrir að segja hug sinn. „Ég verð á lögreglustöðinni meðan forsætisráðherra hittir fólk á Egilsstöðum,“ segir í því síðara, samkvæmt frétt miðilsins.
Í tilkynningu frá lögreglu síðdegis kom fram að eftir „samræður“ við manninn hefði lögregla talið að „engin ástæða sé til frekari aðgerða gagnvart honum eða viðbragða að öðru leyti.“
Kristján Ólafur Guðnason yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi sagði við Kjarnann fyrr í dag að „óstaðfestar“ fregnir af hótunum í garð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hefðu borist lögreglu, en Katrín var þar í heimsókn ásamt þremur öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar.
Kristján Ólafur sagði að búið væri að ná tali af þeim sem hefði sett meintar hótanir fram. Ekki fengust upplýsingar um hvers eðlis meintar hótanir voru eða hvernig þær voru settar fram.
Í frétt Vísis í hádeginu var rakið að Lísa Kristjánsdóttir aðstoðarmaður ráðherra hefði dregið Katrínu til hliðar skömmu áður en hún hugðist koma í útvarpsviðtal í hádegisfréttum Bylgjunnar rétt fyrir kl. 12 á hádegi. Þar sagði að ráðherra hefði svo hafi verið fylgt í bakherbergi í ferjuhúsi Smyril Line við höfnina á Seyðisfirði.
Lögregla varðist allra fregna í fyrstu og fjölmiðlamenn lýstu því að nokkur ringulreið hefði verið á staðnum.
Forsætisráðherra hefur ekki viljað tjá sig um þessi atvik við fjölmiðla. Í frétt á vef mbl.is sagði að Katrín hafi látið sem ekkert hafi í skorist eftir að þessi atvik komu upp, en þess má einnig geta að um 20 mínútum eftir að henni var kippt til hliðar í fylgd lögreglu fyrir áætlað viðtal við Bylgjuna var hún komin í viðtal í beinni útsendingu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.
Lögregla ræddi við manninn og sér ekki tilefni til frekari viðbragða
Uppfært kl. 15:50: Lögregla sendi frá sér tilkynningu vegna málsins síðdegis. Þar segir að upplýsingar hefðu borist lögreglu um hótanir sem hefðu átt að hafa beinst að forsætisráðherra.
„Sá er borinn var fyrir hótuninni reyndist þá ekki vera á Seyðisfirði. Lögregla hefur nú rætt við hann og telur eftir þær samræður að engin ástæða sé til frekari aðgerða gagnvart honum eða viðbragða að öðru leyti,“ segir í tilkynningu lögreglu.