Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er sagður hafa verið í samkvæmi í Ásmundarsal í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi, sem lögregla leysti upp. Bæði Vísir og Fréttablaðið segja frá þessu.
Bjarni mun hafa verið þar staddur ásamt eiginkonu sinni, Þóru Margréti Baldvinsdóttur, en lögregla sagði frá því í dagbók sinni í morgun að á milli 40-50 manns hefðu verið í samkvæminu, þar á meðal „háttvirtur ráðherra“ í ríkisstjórn Íslands.
Allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar nema Bjarni og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafa í morgun tjáð fjölmiðlum að þeir hafi ekki verið á staðnum.
Lögregla sagði frá því að töluverð ölvun hefði verið í samkvæminu og að enginn þeirra sem þar voru staddir hefðu verið með grímur fyrir andliti. Lögreglan var kölluð til vegna samkvæmisins klukkan 22:25 á Þorláksmessukvöldi í kjölfar þess að henni barst tilkynning um sérstaka smithættu og brot á reglum um fjöldasamkomu.
Í dagbók lögreglunnar segir að veitingarekstur sé í umræddum sal sem falli undir svokallaðan flokk II og því ætti salurinn að hafa verið lokaður á þeim tíma sem samkvæmið var stöðvað.
„Í ljós kom að á milli 40-50 gestir voru samankomin í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun var í samkvæminu og voru flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu athygli að enginn gestanna var með andlitsgrímur fyrir andliti. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi voru fjarlægðartakmörk virt,“ sagði í dagbókarfærslu lögreglu.
Lögreglu líkt við nasista er hún stöðvaði gleðskapinn
Lögreglumenn sáu aðeins þrjá sprittbrúsa í salnum. Þeir ræddu við ábyrgðarmenn skemmtunarinnar á staðnum og kynntu þeim að skýrsla yrði rituð. Í kjölfarið var gestum vísað út.
„Þegar að gestir gengu út voru flestir búnir að setja upp andlitsgrímu. Gestirnir kvöddust margir með faðmlögum og einhverjir með kossum. Einn gestanna var ósáttur með afskipti lögreglu og líkti okkur við nasista,“ segir lögregla í tilkynningu sinni.
Kjarninn sendi í morgun fyrirspurn á upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar og óskaði eftir upplýsingum um hvaða ráðherra það hafi verið sem var viðstaddur í umræddu samkvæmi í gærkvöldi. Tveir fjölmiðlar fullyrða nú að það hafi verið Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.