„Eitt af því mikilvægasta sem þarf að gera hér er opinbert átaksverkefni í húsnæðismálum. Það væri „atvinnuskapandi“ fyrir verkafólk og jafnframt það eitt það mikilvægasta í að gera efnahagslega tilveru verka- og láglaunafólks betri.“
Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook í dag. Tilefnið er frétt RÚV þar sem fram kemur að mjög hátt verð á lóðum og takmarkað framboð nýrra íbúða sé meðal þess sem veldur því að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu sé mun hærra en það þyrfti að vera. Sögulega lágir vextir hafi einnig áhrif á verðið.
Sólveig Anna segir að í stað þess að geta aldrei um frjálst höfuð strokið vegna hins sjúka og ömurlega seinna arðráns sem húsnæðismarkaðurinn er, gæti vinnuaflið lifað við þau réttindi, sem sum myndu kalla grundvallarréttindi, að hafa aðgang að öruggu, góðu og fallegu húsnæði fyrir sig og sína. „Ekki er hægt að hugsa sér mikilvægari skilaboð til láglaunafólks og barna þeirra um að þau séu mikilvægur (jafnvel ómissandi ...?) hluti samfélagsins en að farið væri í opinbert byggingar-átaks-verkefni,“ skrifar hún. Sólveig Anna spyr hvers vegna það sé þá ekki gert.
Tilbúin til að láta sjúkt og mannfjandsamlegt ástand vaxa og dafna
„Öll hér vita og hafa lengi vitað að húsnæðismarkaður höfuðborgarsvæðisins er ekkert nema leikvöllur fjármagnseigenda sem hafa komist upp með algjöra vöruvæðingu grunnþarfanna. Verklýðshreyfingin reynir að stoppa í eitt gat með húsnæðisfélaginu Bjargi en jafnvel þar er leigan undirseld markaðslögmálum vegna þess að annars hefur félagið ekki aðgang að lánsfé til byggingarframkvæmda. Og á meðan nokkrum manneskjum er komið í (dýrt) skjól þar halda öll hin götin áfram að stækka og ný að verða til. Og enginn gerir neitt. Þrátt fyrir að öll viti. Hvers vegna? Jú, vegna þess að frjálslynt nútíma fulltrúalýðræðið hræðist ekkert meira en ægivald kapítalsins. Hræðist ekkert meira en að finna nægilegt hugrekki til að viðurkenna að gjáin sem skilur að hið opinbera og markaðinn er ekkert annað er ógeðsleg blekking,“ skrifar hún.
Markaðslögmálagjáin sem hræði kjörna fulltrúa svo hræðilega að þau séu tilbúin til að láta sjúkt og mannfjandsamlegt ástand vaxa og dafna í eigin samfélagi er ekkert nema tíbrá búin til úr sjúkri og yfirgengilegri frekju eignastéttarinnar. „Tíbrá sem öllu máli skiptir að við öll látum að sé raunveruleg svo að ekki opinberist hversu geigvænlegt hugleysið er og hve sjúkleg græðgin er.“
Sólveig Anna segir að það að hræðast að finna hugrekki ætti að vera þversögn. Manneskja ætti að þrá að finna hugrekkið til að gera það sem hún veit að þarf að gera. „En frjálslynt fulltrúalýðræði nýfrjálshyggjunnar þarf mest að öllu að tileinka hér algjört hugleysi þegar kemur að því að takast á við sjúklega ólýðræðislegt valdaójafnvægið í samfélaginu, sléttskiptinguna og misskiptinguna. Það er öruggast fyrir meðlimi þess að telja sjálfum sér trú um að þau geti í raun ekkert gert því þau eru á endanum ekki hræddari við neitt en að afneita ólýðræðislegum leikreglum arðránsins. Og til þess að breiða yfir eigin hugleysi láta þau einfaldlega eins og risastórt vandamál, risastórt samfélagslegt vandamál sé ekki til. Hugrekki eiga þau ekki til en eru í stað þess uppfull af tóminu sem skortur á ímyndunarafli og dirfsku býr til.
Jafnvel á þeirri sögulegu stundu þegar öllum er ljóst að hið opinbera getur opnað fjárhirslur sínar upp á gátt svo að meðlimir eignastéttarinnar gangi ekki af göflunum og komi í veg fyrir sóttvarnaraðgerðir, þegar öllum er ljóst að gjáin er alls ekki óyfirstíganleg, að gjáin er aðeins látin skilja að hið opinbera og markaðinn til að koma í veg fyrir að misskipting og stéttskipting séu upprættar, að gjáin er ekki til í alvöru; jafnvel á þessari sögulegu stundu er engin úr stjórnmálastéttar-valda veröldinni með hugrekkið, ímyndunaraflið, dirfskuna, samhygðina, GETUNA til að færa láglaunafólki og fjölskyldum þeirra það sem þeim er skuldað: Að láta þau ekki lengur vera í fjötrum siðferðilega óverjandi húsnæðiskerfis,“ skrifar hún.
Erum að dæma fjölda fólks til áframhaldandi efnahagslegrar kúgunnar
„Eftir að hafa hlustað á mærðarlega sjálfsupphafningu og þjóðernisinnblásið orðasalat forseta og forsætisráðherra um árámót, fólks sem lifir í lifa í vellystingum praktuglega, þar sem þau sem ekkert eiga og ekkert mega, hin atvinnulausu og hin eignalausu, þau sem strita á lágmarkslaunum og eiga aldrei krónu með gati, þau sem ekki er hægt að nýta til vinnu í arðráns-maskínunni, eru einfaldlega ekki ávörpuð, einfaldlega látið sem þau séu bara ekki til, get ég ekki annað en vonað að öllu hjarta og öllum heila; vonað að við sjálf finnum nægilegt hugrekki til að sameinast í því að ganga í öll þau átaksverkefni sem framkvæma þarf.
Og á engu væri betra að byrja en að húsnæðiskerfi fyrir vinnuaflið, byggðu af því sjálfu, fyrir það sjálft, með fegurð og notagildi í fyrirrúmi, mannvirðingu og ó-arðrán að leiðarljósi. Við þurfum einfaldlega að opna á hugrekkið sem við vitum að við eigum til og láta það knýja áfram getuna til að geta látið verkin tala. Ef við getum það ekki, ef við hlýðum „lögmálum markaðarins“ erum við einfaldlega að dæma fjölda fólks til áframhaldandi efnahagslegrar kúgunnar sjúkrar heimsmyndar sem er hvort sem er svo mörkin að hún á ekkert annað eftir að gera nema hrynja vegna eigin innri mótsagna og brjálsemi,“ skrifar hún að lokum.