Davíð Þorláksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri opinbera hlutafélagsins Betri samgangna, sem stofnað var af ríkinu og sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til þess að hrinda framkvæmdum við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í framkvæmd.
Davíð hefur verið forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs hjá Samtökum atvinnulífsins frá árinu 2017, en var þar áður yfirlögfræðingur Icelandair Group frá 2009-2017. Þá starfaði hann einnig sem framkvæmdastjóri fasteignafélaganna Lindarvatns frá 2015-2017 og Hljómalindarreits frá 2016-2017, svo eitthvað sé nefnt.
Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og varð héraðsdómslögmaður 2009. Hann er með MBA gráðu frá London Business School og varð löggiltur verðbréfamiðlari 2017.
Hann hefur sinnt ýmsum stjórnar- og félagsstörfum og er í dag formaður stjórnar hjá bæði VIRK starfsendurhæfingarsjóði og Ungum frumkvöðlum. Einnig hefur Davíð verið formaður stýrihóps mennta- og menningarmálaráðherra um máltækni fyrir íslensku og setið í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Kanadísk-íslenska viðskiptaráðsins auk þess að hafa setið í ráðgjafanefndum EES og EFTA 2005-2007.
Þá var hann formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum 2011-2013.
„Borgar línan sig?“
Davíð hefur verið reglulegur pistlahöfundur bæði á Fréttablaðinu og Viðskiptablaðinu undanfarin ár og þar hefur hann stundum skrifað um bættar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og Borgarlínuverkefnið.
„Þeir sem fara flestra sinna ferða á bíl, og sjá ekki fyrir sér að það muni breytast, ættu að vilja að allir hafi raunverulegt val um samgöngumáta. Því fleiri sem eru í Strætó, gangandi eða hjólandi því færri eru á götunum að tefja fyrir bílunum. Það er líka ódýrast fyrir skattgreiðendur og líklegast til að stytta ferðatíma. Þess vegna margborgar línan sig fyrir alla,“ skrifaði Davíð í pistli í Viðskiptablaðið árið 2018.
Hann hefur sinnt ýmsum stjórnar- og félagsstörfum og er í dag formaður stjórnar hjá bæði VIRK starfsendurhæfingarsjóði og Ungum frumkvöðlum. Einnig hefur Davíð verið formaður stýrihóps mennta- og menningarmálaráðherra um máltækni fyrir íslensku og setið í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Kanadísk-íslenska viðskiptaráðsins auk þess að hafa setið í ráðgjafanefndum EES og EFTA 2005-2007. Þá var hann formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á árunum 2011-2013.
Um 120 milljarðar áætlaðir í framkvæmdir á næstu 15 árum
Félagið Betri samgöngur var stofnað í byrjun október á liðnu ári og hefur sem áður segir þann tilgang að hrinda umfangsmiklum samgönguframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu í framkvæmd. Ríkið á 75 prósent hlut í félaginu en sveitarfélögin sex 25 prósent.
Alls stendur til að verja 120 milljörðum króna í að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með bættum almenningssamgöngum, Borgarlínu, og stofnvegaframkvæmdum á næstu 15 árum, samkvæmt samgöngusáttmálanum sem undirritaður var í september 2019.
Fram kemur í tilkynningu frá Betri samgöngum að Vinnvinn ráðningar og ráðgjöf hafi haft umsjón með ráðningarferlinu.