Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, ávarpaði þjóð sína og aðra sem fylgjast slegnir með atburðunum í höfuðborg Bandaríkjanna í kvöld.
Hann skoraði á Donald Trump, fráfarandi forseta, um að ávarpa þjóðina í beinni sjónvarpsútsendingu og fordæma árásina á þingið og gera allt sitt til þess að reyna lægja öldurnar.
„Í þessum töluðu orðum er lýðræði okkar undir fordæmalausri árás, sem er ólík öllu öðru sem við höfum séð í nútímanum“ sagði Biden í ræðu sinni, sem fjölmiðlar um víða veröld sýndu í beinni útsendingu, enda hefur ofbeldisfullur múgur brotist inn í húsakynni Bandaríkjaþings á Kapitóluhæð í Washington DC.
Biden sagði að um væri að ræða „fámennan hóp öfgamanna“ og að það yrði að koma böndum á ástandið. Orð forsetans skiptu máli í því samhengi.
„Farið heim, við elskum ykkur“
Skömmu seinna setti Trump inn myndskeið á Twitter þar sem hann bað mótmælendur um að fara heim í friði.
En, í myndskeiðinu sagði hann einnig: „Við elskum ykkur“ og beindi orðum sínum til mótmælendanna.
Hann endurtók einnig, enn á ný, þau rangindi að hann hefði unnið kosningarnar sem fram fóru í Bandaríkjunum 3. nóvember síðastliðinn. Hann sagðist skilja reiði fólks.
Fyrr í dag hélt hann ræðu frammi fyrir hópi mótmælenda í Washington og sagðist aldrei ætla að gefast upp.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 6, 2021