Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. gefur aldrei upp einstakar sölutölur en sala á Egils malti og appelsíni er samkvæmt fyrirtækinu ætíð góð, ekki síst yfir hátíðirnar og síðasta ár var þar ekki undantekning.
Þetta kemur fram í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Kjarnans um hversu mikið ölgerðin hefði selt af Egils malti og appelsíni á síðasta ári. Fram kom í tilkynningu frá Reykjavíkurborg í vikunni að fyrirtækið hefði í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur stöðvað sölu og innkallað Egils malt og appelsín í hálfs lítra dósum.
Ástæða innköllunar var að hugsanlega gæti verið glerbrot í drykkjardós. Glerbrot í matvælum geta valdið skemmdum á tönnum og sárum í munnholi og meltingarvegi, segir í tilkynningunni.
Um eina framleiðslulotu að ræða
Guðni Þór Sigurjónsson, forstöðumaður vöruþróunar og gæðadeildar, segir í svarinu til Kjarnans að neytandi hafi haft samband eftir að hann fann glerbrot í dós af Malti og Appelsíni.
Þá kemur enn fremur fram í svarinu að ekki liggi fyrir á þessari stundu hversu stór hluti af því sem framleitt var fyrir jólin sé um að ræða. „Aðeins var um að ræða eina framleiðslulotu. Þessi einstaka lota var innan við 5 prósent af framleiddu Malti og Appelsíni,“ segir í svarinu.