Fréttatími Stöðvar 2 verður í lokaðri dagskrá frá 18. janúar næstkomandi, en honum hefur í 34 ára verið sjónvarpað í opinni dagskrá. Það þýðir að aðrir en áskrifendur að Stöð 2 munu ekki lengur geta horft á fréttatímann.
Honum verður hins vegar áfram útvarpað á Bylgjunni og því verður hægt að hlusta á fréttirnar í beinni útsendingu. Auk þess munu birtast myndbrot úr honum á fréttavefnum Vísi eftir að útsendingu lýkur á Stöð 2.
Þórir Guðmundsson, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar segir í fréttatilkynningu að breytingarnar gefi fréttastofunni kleift að standa vörð um öfluga fréttaþjónustu í sjónvarpi. Breyttar aðstæður kalla á nýjar áherslur í fjölmiðlun en það sem breytist ekki er áhersla okkar á traust, vandvirkni og nálægð við fólk. Fréttastofan verður því áfram leiðandi í miðlun frétta – á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni.“
Þær breytingar eru gerðar á áskrift að Stöð 2 að henni fylgir framvegis aðgangur að Stöð 2+. sem hét áður Maraþon, á 7.990 krónur á mánuði. Samtímis verður sú breyting gerð á áskriftarskilmálum að engin binding er á áskriftum umfram líðandi mánuð. Það þýðir að hægt verður að segja upp eða gera breytingar á áskriftum fyrir 25. hvers mánaðar sem taka þá gildi fyrsta dag næsta mánaðar.
Tekjur vegna fjölmiðlareksturs hafa dregist saman
Stöð 2 er í eigu fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar. Sýn keypti ýmsa fjölmiðla af félaginu 365 miðlum í lok ársins 2017. Um er að ræða ljósvakamiðla á borð við Stöð 2, Bylgjuna og tengdar útvarpsstöðvar og fréttavefinn Vísi. Kaupverðið var 8,2 milljarðar króna.
Á milli áranna 2018 og 2019 lækkuðu tekjur Sýnar af umræddum fjölmiðlum um 446 milljónir króna og í upphafi árs 2020 var viðskiptavild sem var tilkomin vegna fjölmiðlanna sem voru keyptir lækkuð um 2,5 milljarða króna.
Í fjárfestakynningu vegna nýjasta uppgjörs Sýnar, sem var fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2020, kom fram ayglýsingatekjur fjölmiðla Sýnar hafi dregist saman um 15 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins í samanburði við sama tímabil 2019, og að það sé meginástæða þess að fjölmiðlatekjur hafi haldið áfram að lækka. Það var sagt að stórum hluta vegna áhrifa af yfirstandandi heimsfaraldri. Tekjur af sjónvarpsdreifingu hafi hins vegar aukist og jákvæð þróun er sögð í áskriftartekjum milli ársfjórðunga eftir að þær drógust saman á fyrri hluta ársins 2020.