Íbúaráð Grafarvogs samþykkti á fundi sínum í síðustu viku tillögu um að óska eftir því við póstnúmeranefnd Íslandspósts að póstnúmeri Bryggjuhverfis verði breytt, úr 110 í 112. Tillögunni var vísað áfram til borgarráðs.
Í tillögu íbúaráðsins kemur fram að óskað sé eftir þessari breytingu vegna óska frá íbúum Bryggjuhverfis. Í skipulagi Reykjavíkurborgar fylgi Bryggjuhverfið Grafarvogi. Því sé „eðlilegast að hverfið fái sama póstnúmer og önnur hverfi í Grafarvogi“, sem er 112, en verði ekki lengur með póstnúmerið 110, sem er tengt við Árbæinn.
Fasteignaauglýsingar og kirkjuumdæmi
Berglind Eyjólfsdóttir, íbúi í Bryggjuhverfinu og varaborgarfulltrúi sem situr í íbúaráði Grafarvogs fyrir hönd Samfylkingar, segir í samtali við Kjarnann að fyrst og fremst sé íbúaráðið að óska eftir þessari breytingu til þess að eyða misskilningi um að Bryggjuhverfið tilheyri Árbænum.
Hún tekur sem dæmi, í samtali við blaðamann, að þegar fólk fari inn á fasteignasíður fjölmiðlanna og hafi hug á að skoða íbúðir í Grafarvogi stimpli fólk inn póstnúmerið 112. Þá sjáist ekki eignirnar sem séu til sölu í Bryggjuhverfinu. Þó sé það svo að hverfið sé hluti Grafarvogs hvað skipulag borgarinnar og þjónustu varðar.
„Við tilheyrum Grafarvogi að öllu leyti,“ segir Berglind og nefnir að íbúar í hverfinu séu í Grafarvogssókn og börnin í hverfinu sæki skóla yfir Gullinbrúna. Margir íbúar telji hins vegar til dæmis að hverfið tilheyri Árbæjarsókn, vegna póstnúmersins. Þetta sé því bara leiðrétting til að eyða misskilningi sem stundum verði um hvar íbúar hverfisins skuli sækja þjónustu.
Bryggjuhverfið teygir úr sér og stækkar
Fyrstu húsin í Bryggjuhverfinu risu skömmu fyrir aldamót og um þessar mundir er verið að byggja fjölda íbúða í vesturhluta hverfisins, sem verið hefur á teikniborðinu um árabil.
Í fyllingu tímans verður Bryggjuhverfið svo nátengt þeirri miklu uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem borgaryfirvöld áætla að verði næsta áratug á Ártúnshöfðanum og í Elliðaárvogi, þar sem iðnaðarsvæði víkur fyrir nýrri íbúabyggð.
Gert er ráð fyrir að íbúðir í nýju borgarhverfi á Ártúnshöfða verði allt að 6.000 talsins þegar hverfið verður að fullu uppbyggt. Það eru svipað margar íbúðir og eru í öllum Grafarvoginum í dag. Ráðgert er að þrjú skólahverfi verði í nýja borgarhlutanum, eins og sagði frá í umfjöllun Kjarnans í haust.
Ártúnshöfðinn allur, auk Bryggjuhverfis, er í póstnúmeri 110 í dag, sem nær líka yfir allan Árbæinn og Norðlingaholt. Handan Elliðaárvogar er svo að rísa íbúðabyggð hins nýja Vogahverfis, sem er í póstnúmeri 104, en það póstnúmer teygir sig svo Vogana og langt vestur í Laugardal.
Nýja hverfið á Ártúnshöfða og í Vogabyggð verður þannig á mörkum þriggja póstnúmera, 112, 110 og 104. Berglind segir við blaðamann að það hafi ekkert komið fram um það hvort Ártúnshöfðinn og Elliðaárvogurinn fái kannski í fyllingu tímans sitt eigið póstnúmer og hvort Bryggjuhverfið núverandi fylgi þá þar með eða verði áfram hluti Grafarvogshverfis. Það verði allt að koma í ljós.
En eins og mál standa nú óskar íbúaráðið í Grafarvogi þess að póstnúmeri Bryggjuhverfisins verði breytt, sem áður segir. Tillagan hefur verið send til borgarráðs, sem mun taka málið fyrir og svo mögulega beina tillögunni áfram til póstnúmeranefndar Íslandspósts.