Mótás, félag í eigu Bergþórs Jónssonar og Fritz Hendriks Berndsen, keypti stærstan hluta þess 12,1 prósenta eignarhluts Landsbankans í fjárfestingafélaginu Stoðum sem seldur var í desember fyrir 3,3 milljarða króna. Það félag keypti bréf fyrir rúman milljarð króna.
Á meðal annarra fjárfesta sem keyptu af Landsbankanum er eignarhaldsfélagið P1211 ehf., sem er í eigu Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og Ágústu Margrétar Ólafsdóttur, eiginkonu hans. Þau keyptu um eitt prósent hlut.
Frá þessu er greint í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag.
Á meðal annarra sem keyptu af Landsbankanum samkvæmt hluthafalista sem Markaðurinn hefur undir höndum eru safnreikningur hjá Kviku banka (1,7 prósent), Kári Þór Guðjónsson, starfsmaður JP Morgan, sem bætti við hlut sinn og á nú 2,12 prósent, Lífsverk lífeyrissjóður bætti líka við sig og á nú 1,35 prósent hlut. Það gerði eignarhaldsfélagið GGH, í eigu Magnúsar Ármann, líka og það á nú 1,1 prósent hlut í Stoðum.
Þá segir Markaðurinn að sumir af eldri hluthöfum Stoða hafi bætt við eignarhlut sinn í gegnum félagið S121 ehf., sem er langstærsti eigandi Stoða. Samkvæmt síðasta birta árshlutareikningi Stoða átti félagið 64,6 prósent í fjárfestingafélaginu um mitt síðasta ár en sú breyting hefur orðið á að TM heldur nú á hlutum í stærsta eiganda sínum í eigin nafni, og á 12,4 prósent í Stoðum. Eftir stendur að S121 á rúmlega 55 prósent hlut og það þýðir að saman hefur þessi hópur bætt við sig nálægt þremur prósentustigum af eign í Stoðum við sölu Landsbankans.
Vildu ekki upplýsa um kaupendur
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að hvorki Landsbankinn né Stoðir töldu sig geta veitt upplýsingar um hvaða fjárfestar keyptu 12,1 prósent hlut bankans í Stoðum í desember síðastliðnum. Einungis fengust þær upplýsingar að Fossar markaðir hefðu gert tilboð fyrir hönd fjárfesta sem tekið hafði verið. Fossar töldu sig heldur ekki geta upplýst um hverjir nýju eigendurnir væru.
Þar sem Stoðir eru óskráð félag, og tilkynningarskylda þess því verið einskorðuð við hluthafafundi og birtingu árs- og árshlutareikninga, er uppfærður hluthafalisti ekki aðgengilegur á heimasíðu félagsins eins og er hjá skráðum félögum. Enn fremur hefur gögnum um breytingu á eigendahópi Stoða ekki verið skilað inn til fyrirtækjaskrár og því ekki hægt að sjá hverjir keyptu í slíkum gögnum.
Markaðurinn segist hins vegar vera með nýjan hluthafalista undir höndum.
Stórir í tveimur bönkum
Stoðir er einn umsvifamesti einkafjárfestirinn á íslenskum hlutabréfamarkaði í dag. Félagið er stærsti innlendi einkafjárfestirinn í Arion banka með 4,99 prósent eignarhlut. Eigið fé Arion banka var 192 milljarðar króna í lok september síðastliðins.
Það er líka stærsti eigandi tryggingafélagsins TM, með 9,9 prósent eignarhlut. Í lok síðasta árs bættu Stoðir svo verulega við sig í Kviku banka, og eru nú stærsti einstaki eigandi hans með 8,24 prósent eignarhlut. Fyrir dyrum er að sameina TM, fjármögnunarfélagið Lykil sem TM á, og Kviku á þessu ári.
Í grunnsviðsmynd markaðsviðskipta Landsbankans sem send var út á valda aðila seint í desember kom fram að sameiginlegt félag væri metið á tæplega 82 milljarða króna samkvæmt verðmati deildarinnar.
Stoðir eru líka stærsti hluthafinn í Símanum, þar sem félagið heldur á 14,86 prósent eignarhlut.
Eignir Stoða voru metnar á 24,7 milljarða króna í lok júní síðastliðins og höfðu rýrnað um tæpan hálfan milljarð króna frá áramótum. Eignir Stoða skiptast að uppistöðu í fjárfestingar upp á 19,3 milljarða króna, reiðufé upp á 3,3 milljarða króna og veitt lán upp á rúma tvo milljarða króna.