Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fresta um tiltekinn tíma breytingum á neðri mörkum aldursviðmiða vegna lýðgrundaðra skimana fyrir brjóstakrabbameinum. Það þýðir að brjóstaskimanir munu áfram hefjast við 40 ára aldur í stað 50 ára aldur. Ákvörðun um að hækka efri mörk aldursviðmiðanna úr 69 árum í 74 ár stendur þó óbreytt.
Í tilkynningu frá heilbrigisráðuneytinu segir að kynna þurfi betur áformaðar breytinga og að fagleg rök standi að baki þeim. Skimunarráð sem starfi á vegum embættis landlæknis fjalli um fyrirkomulag skimana fyrir krabbameinum á faglegum forsendum og byggi á bestu þekkingu hverju sinni. „Það er mat skimunarráðs að breyta skuli aldursviðmiðum brjóstaskimana þannig að skimanir hefjist ekki fyrr en við 50 ára aldur en að efri aldursmörkin hækki úr 69 árum í 74. Tillaga um að hækka lægri aldursviðmiðin var fyrst lögð fram árið 2016 af hálfu embættis landlæknis og aftur á liðnu ári þar sem embætti landlæknis byggði á niðurstöðum skimunarráðs þess efnis.“
Það var embætti landlæknis sem lagði til að farið yrði eftir evrópskum leiðbeiningum við skipulag skimana fyrir krabbameinum, en þar er mælt með skimun 45-49 ára kvenna. Fagráð um brjóstakrabbamein mælti einnig með því að hefja skimun við 45 ára aldur. Fyrirkomulag sem tók gildi um liðin áramót fól í sér að lægri aldursviðmið skimana voru færð úr 40 árum í 50. Krabbameinsfélagið sagði að með nýja fyrirkomulaginu væri landlæknir og skimunarráð að víkja frá evrópsku leiðbeiningunum og áliti fagráðs um brjóstakrabbamein án þess að það væri rökstutt sérstaklega.
Í fréttatilkynningu sem Krabbameinsfélagið sendi frá sér í fyrradag vegna málsins var bent á að brjóstakrabbamein sé algengasta krabbameinið hjá konum. Þótt lífslíkur hafi aukist mjög á undanförnum árum séu enn um 50 konur sem deyja vegna brjóstakrabbameins á hverju ári á Íslandi. Það sé því til mikils að vinna að greina krabbameinið sem fyrst, bæði til að auka lífshorfur og takmarka íþyngjandi meðferðarúrræði.
Í tilkynningunni kom fram að á tímabilinu 2015-2019 greindust árlega að meðaltali 31 brjóstakrabbamein hjá konum á aldrinum 40-49 ára. „Reikna má með því að um þriðjungur þeirra meina hafi greinst í skimun. Mein sem greinast vegna einkenna eru að jafnaði lengra gengin en þau sem finnast við skimun. Af 40-49 ára konum með brjóstakrabbamein bera sennilega rúmlega 14% meðfædda stökkbreytingu í BRCA2-geni og fara þær konur nú flestar annað hvort í sérstakt eftirlit sem felst í árlegum myndgreiningum, eða í brjóstnám. Eftir standa hátt í 30 konur og reikna má með að hjá þriðjungi þeirra myndu meinin greinast í skimun ef hún væri til staðar.
Krabbameinsfélagið leggur áherslu á að gerðar verði leiðbeiningar um hvaða áhættuhópum standi til boða skimun á aldrinum 40-49 ára við þær breytingar sem nú hafa tekið gildi.“