419 rekstraraðilar hafa nú sótt um tekjufallsstyrki fyrir um 2,7 milljarða króna, þrjá daga eftir að opnað var fyrir umsóknir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Samkvæmt tilkynningunni hafa yfir 3.000 fyrirtæki nýtt sér ýmis úrræði stjórnvalda sem eru á annan tug talsins – styrki, lán og annað. Þannig hafa um 1.200 rekstraraðilar fengið lokunarstyrki fyrir um 1,7 milljarða króna.
Tekjufallsstyrkir eiga að nýtast þeim fyrirtækjum sem hafa þurft að sæta takmörkunum vegna sóttvarnarráðstafana og hafa þannig orðið fyrir meira en 40 prósenta tekjufalli vegna faraldursins. Skatturinn fer með framkvæmd úrræðisins og hefur nú þegar afgreitt 69 umsóknir fyrir um 590 milljónir króna.
Til viðbótar við tekjufallsstyrkina mun ríkisstjórnin einnig bjóða upp á svokallaða viðspyrnustyrki, þ.e. viðbótarstyrki fyrir þau fyrirtæki sem hafa orðið fyrir meira en 60 prósenta tekjufalli vegna faraldursins. Í tilkynningu stjórnarráðsins segir að opnað verði fyrir viðspyrnustyrki á næstu dögum.
Samkvæmt nýlegri úttekt VR gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að verja 43,3 milljörðum króna í bæði tekjufalls- og viðspyrnustyrki.