Einn af hverjum fimm íbúum Garðabæjar telja að ákvarðanir við stjórn sveitarfélagsins séu teknar með ólýðræðislegum hætti. Tæpur helmingur telur að ákvarðanatakan sé lýðræðisleg og rúmlega 31 prósent hafa ekki sterka skoðun á því.
Einungis 38,6 prósent íbúa geta nefnt nöfn að minnsta kosti þriggja bæjarfulltrúa í Garðabæ en 61,4 prósent geta það ekki.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun sem Maskína hefur gert fyrir Garðabæjarlistann um bæjarmál í sveitarfélaginu. Garðabæjarlistinn er samvinnuverkefni Viðreisnar, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar í Garðabæ sem boðinn var fram í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningunum 2018.
Sjálfstæðisflokkurinn áfram mjög sterkur
Listinn fékk 28,1 prósent atkvæða í þeim kosningum og þrjá fulltrúa kjörna. Listinn, ásamt flokkunum sem að honum standa, mælist með 30,5 prósent fylgi nú samkvæmt könnun Maskínu. Mögulegt er að það fylgi sé aðeins hærra þar sem aðspurðir sem segjast kjósa „annað“ eru 2,4 prósent. Inni í því mengi gætu verið stuðningsmenn bæði Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar.
Miðflokkurinn hefur dalað í vinsældum í Garðabæ. Hann fékk 6,8 prósent atkvæða í kosningunum 2018 en mælist nú með 3,2 prósent. Það er aðeins minna en Framsóknarflokkurinn, sem mælist með 3,6 prósent fylgi. Hvorugur þeirra myndi ná inn fulltrúa í sveitarstjórn ef kosið væri í dag.
Rúmur helmingur ánægður með meirihlutann og bæjarstjórann
Í könnun Maskínu kemur fram að 54,3 prósent íbúa Garðabæjar eru ánægðir með störf meirihluta Sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu, 30,6 eru í meðallagi ánægðir og 15,1 prósent eru óánægðir.
Meirihluti Garðbæinga er ánægður með störf Gunnars Einarssonar bæjarstjóra Sjálfstæðisflokks, eða 50,1 prósent. Um 20 prósent eru óánægð með hann og 30 prósent hafa ekki skýra skoðun á frammistöðu hans.
Þetta þýðir líka að hluti þeirra sem segjast kjósa Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ er ekki ánægður með meirihlutann eða bæjarstjórann.
Flestir vilja taka lán fyrir hallarekstri
Maskína spurði einnig þátttakendur til hvaða aðgerða þeir myndu vilja grípa ef breyting yrði í tekjum og gjöldum Garðabæjar vegna COVID-19, þar sem tekjur myndu lækka og útgjöld aukast. Rúmlega helmingur, alls 50,8 prósent, aðspurðra sagði að fyrsta val þeirra væri að stofna til lántöku og 19,6 prósent sögðu að fyrsta val þeirra væri að hækka útsvar. Þá sögðu 17,7 prósent að þeir myndu vilja skerða þjónustu bæjarins, 7,3 prósent að hækka ætti gjaldskrár og 4,6 prósent að hækka ætti fasteignaskatta.
Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun Garðabæjar vegna ársins 2021 er gert ráð fyrir því það rekstrarafgangur A-hluta bæjarsjóðs verði neikvæður um 499 milljónir króna á þessu ári og samstæðureiknings um 71 milljón króna.
Tveir af hverjum þremur sem svaraði spurningum Maskínu bjuggu í sérbýli (einbýlishúsi, raðhúsi eða parhúsi) en um þriðjungur í fjölbýlishúsi.
Könnunin fór fram daga 20. nóvember til 15. desember 2020 og voru svarendur 424 talsins. Úrtak íbúa fékk tölvupóst með hlekk á könnunina og var send áminning þrisvar sinnum á þá sem ekki höfðu svarað. Hluti úrtaksins fékk hlekk á könnunina senda í gegnum sms.