Vanskil einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi hafa aldrei verið minni en á árinu 2020, en bæði einstaklingum og nýjum fyrirtækjum á vanskilaskrá fækkaði verulega miðað við árið á undan. Þetta sýna nýjustu tölur úr vanskilaskrá Creditinfo.
Í greiningu frá Creditinfo segir Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður Greiningar og ráðgjafar fyrirtækisins að þróunin sé óhjákvæmileg vegna greiðslufresta flestra lánastofnana eða annarra úrræða til einstaklinga og fyrirtækja. Einnig bætir hann við að faraldurinn hefði í för með sér breyttar neysluvenjur einstaklinga.
Hlutfall fyrirtækja sem voru ný á vanskilaskrá lækkaði úr 4,8 prósentum á árinu 2019 niður í 3,3 prósent í fyrra. Á sama tíma lækkaði hlutfall einstaklinga fóru inn á vanskilaskrá úr 1,93 prósentum í 1,56 prósent.
Ef litið er aftur til síðustu fjögurra ára sést að vanskilatíðni hefur lækkað jafnt og þétt með hverju árinu. Árið 2017 stóð hlutfall nýrra fyrirtækja á vanskilaskrá í 5,9 prósentum, en lækkaði svo í rúm fimm prósent árið 2018. Vanskilatíðni einstaklinga var sömuleiðis mun hærri árið 2017, en þá nam hún 2,48 prósentum.
Samkvæmt Gunnari verður erfitt að segja til um hver þróunin verði á þessu ári, en ólíklegt verði að teljast að þau haldi áfram að dragast saman á árinu. Um leið bætir hann við að á meðan fyrirtæki og einstaklingar njóti greiðslufrests hjá lánastofnunum og fyrirtæki haldi að sér höndum við innheimtu krafna séu ekki miklar líkur á því að skráningum á vanskilaskrá fjölgi til skamms tíma.