Tæp 56 prósent landsmanna leggjast gegn því að ríkið selji hlut sinn í Íslandsbanka á næstu mánuðum, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup sem unnin var fyrir Alþýðusamband Íslands á síðustu dögum.
Samkvæmt niðurstöðum þessarar könnunar segjast 23,5 prósent vera fylgjandi sölu og 20,8 prósent segjast ekki hafa skoðun á málinu, hvorki með né á móti.
Stuðningur við sölu er mestur meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, en 56 prósent þeirra sem sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn voru jafnframt hlynnt því að selja hlut ríkisins í bankanum. Næstmestur stuðningur er á meðal kjósenda Miðflokksins, eða um 32 prósent.
Tekið skal fram að í spurningunni sem Gallup lagði fyrir svarendur var ekki tilgreint hversu stóran hluta ríkið ætlaði sér að selja, en eins og fram kom í gær hefur verið lagt til af hálfu þingnefnda að selja allt að 35 prósent af hlut ríkisins í bankanum.
65 prósent kjósenda VG á móti sölu
Minnstur er stuðningur meðal mögulegra kjósenda Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins, en nær allir sem sögðust ætla að kjósa þessa flokka sögðust jafnframt andvígir sölu á hlut ríkisins í bankanum.
Að öðru leyti er andstaðan mest í röðum kjósenda Samfylkingarinnar, 73 prósent, þar næst Pírata, 68 prósent og loks Vinstri grænna, 65 prósent. Um helmingur kjósenda bæði Viðreisnar og Framsóknarflokks lýstu andstöðu við sölu á hlut ríkisins í bankanum.
13 prósent kjósenda Viðreisnar segjast hlynntir sölu Íslandsbanka, en 23 prósent kjósenda VG eru hlynnt áformunum.
Samfélagsbanki virðist eiga upp á pallborðið
Í könnuninni sem ASÍ lét Gallup framkvæma var einnig spurt um afstöðu til þess að ríkið stofni samfélagsbanka. Fleiri en sex af hverjum tíu voru hlynnt því en einungis 15 prósent andsnúin.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins voru líklegastir til að vera andsnúnir samfélagsbanka. Kjósendur Viðreisnar og Miðflokks eru líklegri en aðrir til að hafa efasemdir um samfélagsbanka en kjósendur annarra flokka líklegri til að styðja slík áform.
Í tilkynningu er haft eftir Drífu Snædal forseta ASÍ að könnunin sýni að sú vegferð stjórnvalda að selja Íslandsbanka njóti ekki stuðnings meðal almennings.
„Salan er keyrð áfram með hraði vegna þess að fjármagnseigendur með fulltingi fulltrúa sinna á þingi vilja ljúka henni fyrir kosningar en í þeim kosningum gæti þau öfl misst umboðið til að ráðstafa eignum almennings. Könnunin sýnir einnig fram á skýran vilja almennings um að ríkið stofni samfélagsbanka. Stjórnmálin þurfa að hlusta á þetta ákall,“ er haft eftir Drífu.
Skoðanakönnunin var netkönnun sem var framkvæmd dagana 14.-22. janúar 2021. Úrtakið var 1.588 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri. Svarhlutfallið var 52,5 prósent.