Þrátt fyrir að launamunur kynjanna hafi minnkað umtalsvert á síðustu tólf árum voru laun kvenna 14 prósentum lægri en laun karla árið 2019. Munurinn er meiri í betur launuðum störfum og sérstaklega áberandi innan fjármálageirans.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu um óleiðréttan launamun kynjanna, sem reiknaður er sem hlutfallslegur mismunur á tímakaupi karla og kvenna, miðað við kaup karla. Samkvæmt tölunum jókst þessi munur lítillega á milli 2018 og 2019, úr 13,6 prósentum yfir í slétt 14 prósent.
Þessi munur er nokkuð minni en óleiðréttur launamunur kynjanna árið 2008, en þá nam hann rúmum 20 prósentum.
Á þessum tólf árum hefur munurinn minnkað minnst hjá starfsmönnum í flutningum og geymslu en mest hjá starfsmönnum í fræðslustarfsemi. Þó er langt í land í sumum atvinnugreinum, til dæmis fá konur sem vinna í fjármála- og vátryggingastarfsemi 33% lægri laun heldur en karlar.
Meiri munur í betur launuðum störfum
Svo virðist sem kjaramisvægið milli kynjanna sé meira eftir því sem störfin eru betur launuð. Þannig fá kvenkyns stjórnendur, sérfræðingar og tæknar um fimmtungi lægri laun heldur en karlkyns samstarfsfélagar þeirra, á sama tíma og munurinn er nær tíu prósentum hjá þjónustufólki, verkafólki og ósérhæfðu starfsfólki.
Meiri yfirvinna og fleiri ofurríkir karlar
Samkvæmt Hagstofu raðast hlutfallslega fleiri konur í lægra launuð störf, á meðan karlar eru líklegri til að vera í betur launuðum störfum, að hluta til vegna þess að þeir vinna meiri yfirvinnu en konur. Hátt hlutfall yfirvinnustunda hefur áhrif til hækkunar á tímakaupi þar sem yfirvinnustund er að jafnaði dýrari en dagvinnustund.
Hagstofan bætir einnig við að þar sem mikill munur er gjarnan á launum á meðal þeirra allra ríkustu og þar sem karlar eru mun líklegri til að tilheyra þeim hópi gætu laun þeirra ýkt meðaltal launamunarins að einhverju leyti.