Þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins auk eins þingmanns utan flokka hafa lagt fram breytingartillögu við stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem í felst að ákvæði frumvarpsins um náttúruauðlindir er breytt. Tillagan gerir ráð fyrir því að ákvæðið verði samhljóma því ákvæði sem var að finna í breytingartillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við frumvarp stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá sem lagt var fram 2013, en var ekki afgreitt.
Í frumvarpi Katrínar segir að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki séu háð einkaeignarrétti séu þjóðareign og að enginn geti fengið þau gæði eða réttindi til eignar eða varanlegra afnota. þá eigi að kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni með lögum, ekki í stjórnarskrá.
Breytingartillaga stjórnarandstöðuflokkanna þriggja felur meðal annars í sér að bannað yrði að veðsetja auðlindir sem séu sameiginleg og ævivarandi eign þjóðarinnar. Það gæti haft mikil áhrif á stöðu mála innan sjávarútvegsins ef veiðiheimildir yrðu innkallaðar með einhverjum hætti og leigðar út að nýju, líkt og ýmsir hafa lagt til, þar sem stór hluti úthlutaðs kvóta hefur verið veðsettur til að kaupa upp veiðiheimildir annarra eftir að slíkt var leyft með lögum árið 1997. Afleiðing þessa hefur verið mikið samþjöppun í sjávarútvegi, en samkvæmt nýjustu tölum halda tíu útgerðir á um helming alls úthlutaðs kvóta og fjórar blokkir innan geirans halda á tæplega 43 prósent hans.
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Aðrir flutningsmenn eru allir aðrir þingmenn Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins auk Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utan flokka.
Auðlindarákvæðið sem lagt er til í frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra:
Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Þær skal nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta landsmönnum öllum. Ríkið hefur eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna.
Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði yfir þeim í umboði þjóðarinnar.
Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.
Auðlindaákvæðið sem lagt er til í breytingartillögunni:
Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar.
Óheimilt er að framselja beint eða óbeint með varanlegum hætti til annarra aðila réttindi yfir jarðhita, vatni með virkjanlegu afli og grunnvatni, sem og námaréttindi, í eigu ríkisins eða félaga sem alfarið eru í eigu þess. Sama gildir um réttindi yfir vatni, jarðhita og jarðefnum á ríkisjörðum umfram lágmarksréttindi vegna heimilis- og búsþarfa.
Til þjóðareignar skv. 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafsins innan íslenskrar lögsögu, auðlindir á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga svo langt sem fullveldisréttur ríkisins nær, vatn, þó að gættum lögbundnum réttindum annarra til hagnýtingar og ráðstöfunar þess, og auðlindir og náttúrugæði í þjóðlendum. Löggjafinn getur ákveðið að lýsa fleiri auðlindir og náttúrugæði þjóðareign, enda séu þau ekki háð einkaeignarrétti. Í eignarlöndum takmarkast réttur eigenda til auðlinda undir yfirborði jarðar við venjulega hagnýtingu fasteignar. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.
Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.