Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvort skotið hafi verið á bifreið Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í Reykjavík og segist líta málið mjög alvarlegum augum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Lögregla skoðar hvort málið tengist öðru máli frá því í síðustu viku, þegar skotið var á að minnsta kosti sex rúður í húsnæði Samfylkingarinnar í Reykjavík við Sóltún í Reykjavík.
Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglu hvenær skemmdirnar á bílnum voru unnar.
Eftir að greint var frá því í síðustu viku að skotið hefði verið á rúður á skrifstofu Samfylkingarinnar kom í ljós að ráðist hafði verið með svipuðum hætti gegn skrifstofum annarra stjórnmálaafla og samtaka á Íslandi á síðustu misserum og árum, án þess að fréttir af þeim atvikum hefðu ratað í fjölmiðla.
Jóhann Karl Þórisson yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu sagði við Vísi að slík mál hefðu komið upp hjá Viðreisn í janúar 2020, Sjálfstæðisflokknum í maí 2020 og Samtökum atvinnulífsins í september 2020.
Einnig var haft eftir starfsmanni þingflokks Pírata að skotgöt hefðu fundist í rúðum á skrifstofum flokksins árið 2018 og aftur árið 2019.