Ríkissjóður Íslands gaf út vaxtalaus skuldabréf í evrum að virði 117 milljarða króna, sem jafngildir um fjórum prósentum af landsframleiðslu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkissjóði sem birtist á vef Kauphallarinnar fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni eru skuldabréfin að fjárhæð 750 milljónir evra, bera 0 prósent fasta vexti og voru gefin út til sjö ára á ávöxtunarkröfunni 0,117%.Umsjón útgáfunnar var í höndum Citibank, Barclays og Deutsche Bank.
Þar er einnig haft eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að útgáfan sé í samræmi við stefnu í lánamálum, þar sem aukinni fjárþörf ríkissjóð verði að hluta til mætt með erlendri lántöku. „Markaðsaðstæður eru sérlega hagstæðar um þessar mundir eins og kjör ríkissjóðs nú bera með sér," segir Bjarni.
Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn tæplega 3,5 milljörðum evra eða rúmlega fjórfaldri fjárhæð útgáfunnar. Fjárfestahópurinn samanstendur af bönkum, tryggingafélögum og öðrum fagfjárfestum, aðallega frá Norður-Evrópu.