Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir að íslensk matvælaframleiðsla verðskuldi vitaskuld stuðning og að búa við aðstæður og umgjörð til að blómstra en að stríð ríkisstjórnarinnar við serranó-skinkuna sé dálítið broslegt. Varnarmúr stjórnvalda á landamærunum sé ógnarhár.
Þetta kom fram í máli hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hóf hún mál sitt á að benda á að þegar samkeppnislög komu fyrst fram á sjónarsviðið í Bandaríkjunum árið 1890 hefði tilgangurinn verið að vernda neytendur gegn háu verði annars vegar og takmörkuðu framboði hins vegar.
„Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur sagt samkeppnislög og samkeppnislöggjöf jafn mikilvæg fyrir efnahagslegt frelsi og sjálf stjórnarskráin er fyrir vernd mannréttinda. Samkeppni er enda verkfæri til að stuðla að fjölbreyttara framboði og lægra vöruverði í þágu almennings. Nú um áramótin var tekin upp aðferð við úthlutun tollkvóta á erlendar landbúnaðarvörur sem felst í því að innflutningsheimildum er úthlutað til hæstbjóðanda. Innflytjendur þurfa að greiða útboðsgjald til að fá að flytja inn vörur án tolla,“ sagði hún.
Breytingin muni að líkindum leiða til verðhækkana á matvöru
Vísaði Þorbjörg Sigríður í orð framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, Ólafs Stephensen, sem sagt hefur að útboðsgjaldið hafi um nokkurt skeið farið lækkandi, en um áramótin hafi verið tekin upp ný aðferð, eða raunar eldri, við að ákvarða gjöldin og þá hafi það hækkað á ný.
„Þessi breyting mun auðvitað að líkindum leiða til verðhækkana á matvöru. Þarna er til dæmis 65 prósent hækkun á tollkvóta fyrir nautakjöt, 115 prósent hækkun fyrir lífrænt alifuglakjöt og til að fá að flytja inn ákveðna tegund af skinku, parmaskinku eða serranóskinku, 29-faldast útboðsgjaldið. Ef tilgangurinn var sá að vernda íslenskan landbúnað, hefði þá ekki mátt gera það með þeim hætti að bændur sjálfir hefðu notið góðs af? Aðgerðir stjórnvalda núna byggjast nefnilega ekki á beinum stuðningi við rekstraraðila heldur eingöngu á því að skerða stöðu keppinauta,“ sagði þingmaðurinn.
Hún sagði þetta vera á skjön við aðrar stuðningsaðgerðir ríkisstjórnarinnar þar sem aðgerðirnar hefðu einmitt verið fólgnar í beinum stuðningi. „Íslensk matvælaframleiðsla verðskuldar vitaskuld stuðning og að búa við aðstæður og umgjörð til að blómstra, en stríð ríkisstjórnarinnar við serranóskinkuna er dálítið broslegt. Varnarmúr stjórnvalda á landamærunum er ógnarhár. Stafar almenningi mögulega einhver hætta af parmaskinku, sem við ekki þekkjum? Er þetta eitthvert öryggismál? Eða hvers vegna er ríkisstjórnin einhuga í því markmiði að draga úr samkeppni, hækka verð og fækka valmöguleikum almennings?“ spurði hún að lokum.