Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands og formaður Alþjóðaráðs um stjórnmál orkuskipta, segir að yfirstandandi orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti í græna orkugjafa muni gjörbreyta valdajafnvægi á heimsvísu. Olíurík lönd missa valdastöðu sína í heimshagkerfinu þar sem önnur lönd þurfa ekki að reiða sig á þau til að verða sér úti um orku.
Þetta kemur fram í viðtali Ólafs Ragnars við breska blaðið Financial Times, sem birtist fyrr í dag og var liður í umfjöllun þess um áhrif orkuskiptanna á alþjóðastjórnmál.
Samkvæmt umfjölluninni eru skiptar skoðanir um hvers konar áhrif grænir orkugjafar muni hafa á valdjafnvægi milli ríkja heimsins, en sumir telja að þeir verði einungis notað sem tól ríkjandi stórvelda til að halda völdum.
Ólafur Ragnar telur hins vegar að orkuskiptin muni leiða til nýrrar tegundir stjórnmála: „Á meðan jarðefnaeldsneyti fer smátt og smátt út úr orkukerfinu...mun gamla stjórnmálaskipanin með stórveldi sem orkugjafa einnig fara á brott. Smátt og smátt mun vald þessara ríkja sem voru mikilvæg í heimi sem reiðir sig á jarðefnaeldsneyti, eða stórra fyrirtækja líkt og olíufyrirtækja, fjara út.“
Hins vegar segir Ólafur að enn verði stórar valdablokkir í orkumálum á heimsvísu til þótt grænir orkugjafar verði ráðandi, en að þær verði ekki jafn valdamiklar og olíuveldin eru núna. Þess vegna segir hann að ekki ætti að líta á lönd eins og Kína, sem hefur forskot á mörg önnur ríki í umhverfisvænni orkuframleiðslu, sem ógn, þar sem erfitt verður fyrir landið að beita jafnmiklu valdi á önnur ríki og olíurík lönd hafa gert á undanförnum árum.