Stjórn Síldarvinnslunnar hefur ákveðið að hefja undirbúning á skráningu hlutabréfa félagsins á aðalmarkað Nasdaq Iceland og hefur ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans til að hafa umsjón með verkefninu.
Frá þessu er greint á heimasíðu fyrirtækisins. Þar segir enn fremur að LEX lögmannsstofa og endurskoðendafyrirtækið EY muni sjá um gerð áreiðanleikakannana.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf segir að farið sé í þessa vegferð með það í huga að efla félagið og opna Síldarvinnsluna fyrir fjárfestum. „Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og er Síldarvinnslan meðal stærstu og öflugustu sjávarútvegsfélaga landsins. Með skráningu félagsins á markað fjölgar tækifærum fjárfesta til að koma að sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er framsækin atvinnugrein þar sem stöðugt er unnið að aukinni verðmætasköpun auðlindarinnar samhliða áskorunum í að draga úr kolefnisspori og umhverfisáhrifum greinarinnar.“
Eigið fé upp á 47 milljarða króna
Síldarvinnslan ehf. átti eigið fé upp á 360,5 milljónir dala í lok árs 2019. Á meðalgengi þess árs gerir það 44 milljarða króna en á gengi dagsins í dag er eigið fé um 47 milljarðar króna.
Veiðiheimildir Síldarvinnslunnar voru bókfærðar á 228,3 milljónir dala í lok árs 2019. Á gengi dagsins í dag gera það um 30 milljarðar króna. Félagið hefur á undanförnum árum keypt mikið magn af kvóta á markaði og samstæðan hefur einnig fjárfest mikið, meðal annars í nýjum skipum.
Síldarvinnslan heldur beint á 5,2 prósent af öllum úthlutuðum afla. Auk þess heldur Bergur-Huginn, sem er að öllu leyti í hennar eigu, nú á á um 2,7 prósent alls kvóta. Auk þess á Síldarvinnslan 75,20 prósent hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf., sem heldur á 0,62 prósent af úthlutuðum kvóta.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja hf, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag, sem það sama gildir um, heldur á 0,64 prósent hans.
Samanlagt er þessi blokk Samherja og Síldarvinnslunnar með að minnsta kosti 17,5 prósent aflahlutdeild.
Ekki tengdir aðilar samkvæmt lögum
Næst stærsti eigandi Síldarvinnslunnar er félagið Kjálkanes ehf. Á meðal helstu hluthafa þess er Björgólfur Jóhannsson, hinn forstjóri Samherja, og fjölskylda hans. Sami hópur á einnig útgerðarfélagið Gjögur, sem heldur á 2,29 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum. Ef sá kvóti er talin með ofangreindu er ljóst að rétt undir fimmtungur (19,79 prósent) af öllum úthlutuðum aflaheimildum landsins eru á höndum fyrirtækja sem eru að einhverju leyti í eigu þeirra tveggja manna sem sitja í forstjórastólum Samherja.
Gildandi lög skilgreina aðila í sjávarútvegi þó ekki tengda nema einn eigi meirihluta í öðrum. Því eru Samherji og Síldarvinnslan ekki skilgreind sem tengdir aðilar og Gjögur og Síldarvinnslan ekki heldur, enda undir 50 prósent mörkunum líkt lög heimila. Í tilfelli Samherja er hann eins lítið undir þeim og mögulegt er, eða 0,01 prósent. Það að skilgreina aðila tengda út frá meirihlutaeign eru mjög há mörk í samanburði við það sem tíðkast annars staðar hérlendis.
Rannsókn hætt vegna anna
Fiskistofa réðst í frumkvæðisrannsókn á árunum 2009 og 2010 á því hvort að telja ætti Samherja, Gjögur (hlutur Gjögurs í Síldarvinnslunni var færð yfir í Kjálkanes árið 2015) og Síldarvinnsluna sem tengda aðila. Niðurstaðan var sú að engin rök væru fyrir því að Samherji og Gjögur færu með raunveruleg yfirráð yfir Síldarvinnslunni.
Samkeppniseftirlitið ákvað í kjölfarið að kanna hvort að Samherji, Gjögur og Síldarvinnslan væru ótengd líkt og þau hefðu haldið fram. Rannsókn málsins leiddi í ljós umtalsverða samvinnu milli þessara fyrirtækja í útgerð, fiskvinnslu og sölu afurða auk þess sem við blasti að Samherji og Gjögur áttu fulltrúa í stjórn Síldarvinnslunnar. Í ljósi þessa var það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að óhjákvæmilegt væri að hefja nýtt stjórnsýslumál til að rannsaka tengslin frekar.
Nærri fimm árum síðar spurðist blaðamaður Fréttablaðsins fyrir um gang rannsóknarinnar. Svörin sem hann fékk voru þau að rannsókninni hefði verið hætt. Ekki vegna þess að tilefnið skorti, heldur vegna þess að málið hafði dagað uppi hjá Samkeppniseftirlitinu vegna seinagangs og því þótti ekki forsvaranlegt annað en að ljúka því án niðurstöðu. Það hefði einfaldlega verið of mikið að gera hjá Samkeppniseftirlitinu.
Kjarninn greindi frá því í nóvember 2019 að þegar Samherji kynnti samstæðu sína erlendis, tveimur árum eftir að þessi niðurstaða Fiskistofu lá fyrir, hafi Síldarvinnslan verið kynnt sem uppsjávarhluti hennar og myndir birtar af starfsemi fyrirtækisins. Þetta sýndu glærukynningar sem voru hluti af þeim gögnum sem Wikileaks birti vegna Samherjamálsins.