Ríkissjóður Íslands ætti að hafa alla burði til að sækjast eftir enn betri lánskjörum á innlendum vaxtamarkaði, en langtímavextir hér á landi eru fjarri öllum vestrænum ríkjum miðað við lánshæfi. Þetta skrifar Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út síðasta föstudag.
Háir langtímavextir slæmir fyrir ríkissjóð
Í grein sinni fer hann yfir þróun langtímavaxta á síðustu árum, en þeir hafa hækkað töluvert hérlendis frá síðasta sumri. Nú eru 10 ára raunvextir á svipuðum stað og þeir voru áður en yfirstandandi kreppa skall á í byrjun síðasta árs, á meðan svipaðir vextir hafa annað hvort hækkað minna eða lækkað umtalsvert í öðrum löndum.
Samkvæmt Agnari Tómasi hafa heimili og fyrirtæki fyrst og fremst notið góðs af vaxtalækkunum Seðlabankans á síðustu mánuðum, þar sem þau fjármagna sig freka á fljótandi eða frekar stuttum vöxtum. Hins vegar hafi sveitarfélög og ríkissjóður notið hans í minna mæli, þar sem þau fjármagna sig frekar á vöxtum til langs tíma.
Mikil eftirspurn en minna framboð
Agnar segir vextina ráðast af framboði og eftirspurn á lánsfé, en þessa stundina sé eftirspurnin mikil á langtímalánum þar sem ríkissjóður og sveitarfélög þurfa að fjármagna hallarekstur sinn. Við þetta bætist að erlendir fjárfestar losuðu tugi milljarða í innlendum skuldabréfum á seinni hluta síðasta árs, sem jók enn á eftirspurnina.
Framboðið á lánsfé hefur hins vegar verið takmarkað, ef miðað er við hlutfall tilboða sem samþykkt eru í skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs. Hér á landi samþykkir ríkissjóður nær öll tilboð sem honum býðst, eða um 95 prósent, en Agnar segir það benda til þess að fáir kaupendur séu til staðar. Til samanburðar hefur ríkissjóður Bretlands að meðaltali samþykkt minna en helming allra tilboða sem honum hefur boðist í sínum skuldabréfaútgáfum á undanförnum mánuðum.
Hátt vaxtastig hérlendis mætti því skýra með mikilli eftirspurn og minni eftirspurn eftir lánsfé.
Skiptir máli fyrir allt hagkerfið
Samkvæmt Agnari skipta vaxtakjör ríkissjóðs miklu máli fyrir efnahagslífið, þar sem hann setur grunn fyrir alla aðra útgefendur í hagkerfinu. Þannig gætu langtímavextir haft mikið um það að segja hversu vel muni ganga að fjölga arðbærum fjárfestingarverkefnum.
Hins vegar segir hann að ríkissjóður ætti að hafa alla burði til að sækjast eftir enn betri lánskjörum á innlendum vaxtamarkaði, þar sem þeir eru mun hærri en í nágrannalöndum ef miðað er við lánshæfi. Einnig sýni mikil eftirspurn eftir nýlegri útgáfu íslenska ríkisins skuldabréfs í evrum að ríkissjóður njóti trausts á erlendum mörkuðum.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.