Gera má ráð fyrir að atvinnuleysi nái hámarki í vor, en lækki svo fljótt eftir því sem líður á árið. Á síðustu mánuðum ársins má svo búast við því að svokallað náttúrulegt atvinnuleysi verði á vinnumarkaðnum, þar sem innan við fjögur prósent hans verði án atvinnu. Þetta kemur fram í nýrri hagspá Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem birtist í morgun.
Spáin gerir ráð fyrir að landið opnist fyrir ferðamönnum í ágúst og að upptaktur verði í efnahagslífinu á mánuðunum þar á eftir. Þá er búist við að verðbólgan lækki hratt á næstu mánuðum og verði ríflega 2,5 prósent á milli janúarmánaða 2021 og 2022, en það er í takt við spár Hagstofu, Seðlabankans og Íslandsbanka.
Hins vegar er mikill munur á spá Hagfræðistofnunar og annarra greiningaraðila þegar kemur að vinnumarkaðnum. Að mati stofnunarinnar má gera ráð fyrir að atvinnuleysi vaxi fram á vor og nái níu prósentum, en falli í sumar og haldi svo áfram að minnka í haust ef landið opnar í ágúst.
Samkvæmt Hagfræðistofnun liggur svokallað „náttúrulegt atvinnuleysi“ hér á landi á bilinu þrjú til fjögur prósent. Búist er við að þessu bili verði náð á síðasta fjórðungi þessa árs og að það haldist nokkuð stöðugt á fyrstu mánuðum næsta árs.
Að jafnaði er búist við að atvinnuleysi verði um 5,7 prósent í ár, en það var 5,5 prósent í fyrra samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar. Þessi spá er þó mun bjartsýnni en hjá Hagstofunni, þar sem búist er við 6,8 prósenta atvinnuleysi og hjá Seðlabankanum, þar sem búist er við því að það muni ná 7,3 prósentum.
Líklegt vanmat hjá Hagstofu
Á síðustu mánuðum hafa atvinnuleysistölur Hagstofu verið langt undir skráðu atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt Hagfræðistofnun er meginskýringin á þessum mun sú að upplýsingar um atvinnulausa eru bjagaðar í vinnumarkaðskönnum Hagstofu þar sem atvinnulausir svari síður spurningum hennar. Þar af leiðandi má áætla að Hagstofan vanmeti atvinnuleysi að öllum líkindum.
Hins vegar bætir Hagfræðistofnun við að Hagstofan beitir sömu aðferðum og aðrar hagstofur erlendis og líklegt sé að þær stríði einnig við svipaðan vanda.