Sjóður í stýringu bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs hefur gert bindandi kauptilboð í meirihluta í upplýsingatæknifyrirtækinu Advania, sem á djúpar rætur á Íslandi en er með höfuðstöðvar í Stokkhólmi, ásamt danska fjárfestingasjóðnum VIA Equity, lykilstjórnendum fyrirtækisins á Norðurlöndunum og nokkrum smærri hluthöfum. VIA Equity hefur verið í eigendahópi Advania í rúm tvö ár. Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda. Hjá Advania, sem byggir með annars á fyrirtækjunum EJS og Skýrr, vina nú um 1.400 manns í 27 löndum. Velta fyrirtækisins hefur vaxið í kringum 20 prósent á ári síðastliðinn fimm ár og árleg velta nú er um fimm milljarðar sænskra króna, eða um 76 milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Markmið nýs eigendahóps er að stuðla að frekari vexti.
Ekki er tilgreint í tilkynningu nákvæmlega hversu stóran hlut sjóður Goldman Sachs mun kaupa ef af viðskiptunum verður.
Fjárfestingasjóðurinn VIA equity og stærsti lífeyrissjóður Danmerkur, PFA, keyptu svo 30 prósent hlut í móðurfélagi Advania haustið 2018.
Fréttablaðið greindi frá því í apríl í fyrra að sjóðir á vegum fjárfestingabankans Rothschild & Co og eignastýringarfélagsins LGT Capital Partners hefðu samið um kaup á hlutum danskra lífeyrissjóða í VIA equity fond III, sem átti þá tæplega fjórtán prósenta óbeinan hlut í Advania.