Einungis 13 prósent af greiðslunum sem vaktastarfsmaður í sóttkví fékk frá íslensku fyrirtæki voru greiddar frá Vinnumálastofnun. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur greiðslur stofnunarinnar hafa verið of lágar, en samkvæmt Samtökum atvinnulífsins (SA) má gera ráð fyrir að hún muni leiðrétta afgreiðslu umsókna hjá öðrum fyrirtækjum sem hafa sótt um endurgreiðslu vegna launa í sóttkví. Þetta kemur fram í frétt frá SA sem birtist á vef samtakanna á föstudag í síðustu viku.
Ríkið greiði fyrir laun í sóttkví
Í fréttinni segir SA að starfsmenn eigi ekki rétt á launum frá atvinnurekenda þegar þeir eru settir í sóttkví án þess að vera veikir, en með nýsamþykktum lögum hafi ríkið ákveðið að styðja atvinnurekendur svo að starfsmenn þeirra sem eru í sóttkví fái greitt.
Samkvæmt lögunum ætti starfsmaður í sóttkví að fá greitt fyrir hvern dag sem hann er í sóttkví, sama hvort sá dagur væri vinnudagur eða ekki. Upphæð daglegrar greiðslu væri jöfn einum þrítugasta af mánaðarupphæð fyrir laun í sóttkví.
Vinnumálastofnunin reiknaði daggreiðslur einnig með þeim hætti, en túlkaði lögin aftur á móti þannig að einungis ætti að inna þeim af hendi þegar starfsmaðurinn hefði átt að vera í vinnu.
42 þúsund á móti sex þúsundum
Þannig var mikill munur á greiðslum fyrirtækis til vaktastarfsmanns síns sem fór í 14 daga sóttkví og greiðslum Vinnumálastofnunar til fyrirtækisins, þar sem starfsmaðurinn átti bara að vinna í tvo daga af þessum 14. Á meðan vinnustaðurinn greiddi starfsmanninum rúmar 42 þúsund krónur fékk hann aðeins tæplega sex þúsund krónur frá Vinnumálastofnun, eða um 13 prósent af greiðslunum.
Kærunefnd velferðarmála hefur nú úrskurðað að framkvæmd Vinnumálastofnunar á greiðslunum hafi verið ólögmæt. Samkvæmt SA er þessi úrskurður fordæmisgefandi og búast má við því að stofnunin fari aftur yfir umsóknir fyrirtækja sem hafa sótt um endurgreiðslu á grundvelli laganna. Samtökin vilja meina að eðlilegt sé að Vinnumálastofnun hafi samband við fyrirtækin að eigin frumkvæði og leiðrétti greiðslur.