Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra deildu ekki sömu skoðun varðandi lífeyrissjóðskerfið hér á landi í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær. Bjarni sagði meðal annars að „við ættum að vera stolt af því hversu ótrúlega öflugt almannatryggingakerfi við höfum byggt upp til að styðja við fólk sem ekki hefur náð að leggja til hliðar í lífeyrissparnað“.
Þingmaðurinn hóf mál sitt á því að segja að einstaklingur sem hefði verið með 400 þúsund krónur í mánaðarlaun mætti reikna með að fá 50 prósent af því, eða um 200.000 krónur, úr lífeyrissjóði. „Þessi einstaklingur verður fyrir skerðingu, 45 prósent skerðingu, allt að frá 60 prósent og upp undir 80 prósent skerðingu, þegar hann skráir sig hjá Tryggingastofnun ríkisins. Meðallaunin í viðkomandi stétt eru enn 400.000 og þar af leiðandi á hann enga möguleika á að komast upp í það sem hann hafði áður fyrir utan það að hann er kominn í fátækt.
Á sama tíma og 60 til 80 prósent skerðingar og skattar ganga yfir þessa ellilífeyrisþega erum við með arðgreiðslur upp á milljarða og þar er verið að rífast um hvort verið sé að skatta milljarðana um 10 prósent eða 20 prósent. Er þetta eðlilegt? Finnst hæstvirtum fjármálaráðherra þetta eðlilegt? Finnst honum þetta eðlileg skipting? Ætti ekki að snúa þessu algjörlega við?“ spurði Guðmundur Ingi.
„Er sanngjarnt að þeir sem fá milljarða fái 10 til 20 prósent skatt af arðinum sínum? Ættu þeir sem eru með lögþvingaðan eignarréttarvarinn lífeyrissjóð þá ekki frekar að fá svona 10 til 20 prósent eða bara fjármagnstekjuskatt á sitt?“ spurði hann enn fremur.
Íslendingar að gera betur en flestir
Bjarni svaraði og sagðist ætla að gera sitt besta til að bregðast við þegar farið væri svona vítt yfir völlinn. „Ég ætla byrja á því að segja að ríkið tekur engan tekjuskatt af 200.000 króna lífeyristekjum ellilífeyrisþega, bara engan. Hins vegar myndi viðkomandi skila útsvari til sveitarfélags. Háttvirtur þingmaður gerir athugasemd við það að sá sem hefur haft einhverjar tilteknar mánaðartekjur yfir starfsævina skuli ekki halda þeim þegar hann gengur á lífeyrisaldur. En þannig er lífeyriskerfið okkar ekki byggt upp. Við gerum ekki ráð fyrir því almennt að fólk haldi að fullu óbreyttum launum á ellilífeyrisaldri, enda eru menn almennt sammála um að það sé óþarfi.“
Sagði hann að þetta breytti því þó ekki að of stór hópur hér á landi hefði ekki náð að nýta starfsævina til að tryggja sér viðunandi framfærslu á grundvelli eiginn sparnaðar í gegnum lífeyriskerfið yfir starfsævina.
„Þá koma réttindi úr almannatryggingum til sögunnar til að bæta stöðuna. Það fer eftir því hvernig maður horfir síðan á samspil þessara kerfa hvort menn kalli það skerðingu eða aukin réttindi sem kemur frá almannatryggingum. Ég lít þannig á að við ættum að vera stolt af því hversu ótrúlega öflugt almannatryggingakerfi við höfum byggt upp til að styðja við fólk sem ekki hefur náð að leggja til hliðar í lífeyrissparnað það sem þarf til að framfleyta sér á efri árum. Það erum við að gera betur en flestir og við erum að gera það mun betur en langflestir.
Við höfum sömuleiðis stigið risastór skref á nánast hverju ári undanfarin ár þannig að til dæmis frá árinu 2015 höfum við aukið ráðstöfunartekjur þeirra sem þiggja bætur frá almannatryggingum að meðaltali um um það bil 25 prósent. Ég er að tala um kaupmátt ráðstöfunartekna, 25 prósent aukning frá 2015. Þetta eru auðvitað ótrúlegar framfarir á ekki lengri tíma,“ sagði Bjarni.
„Þið viljið hafa þá fátæku fátækari og þá ríku ríkari“
Guðmundur Ingi spurði í annað sinn og sagði að enn einu sinni væri verið að snúa út úr hlutunum. „Auðvitað lifir enginn á meðaltali af einhverju mjög lágu sem hefur viðgengist. Við vitum að neysluvísitalan hefur ekki komið nálægt launavísitöluþróun. Það vantar að minnsta kosti 30 prósent upp á. En það er fullt af stéttum, til dæmis bankastjórar, hæstaréttardómarar, jafnvel ráðherrar og þingmenn, sem fá og halda sínum launum alveg 100 prósent eftir að farið er á eftirlaun. Þannig að það er verið að mismuna.“
Spurði hann því hvort það væri eðlilegt að því ríkari sem fólk yrði og því meiri pening sem það fengi því meira héldi fólk eftir og því minna sem fólk hefði því minna fengi það.
„Ef þú telur virkilega að þetta sé sanngjarnt áttu bara að segja að þetta sé það sem þið voruð stefna á og að þetta sé það sem þið viljið hafa. Þið viljið hafa þá fátæku fátækari og þá ríku ríkari,“ sagði þingmaðurinn.
Þegar á heildina er litið erum við að gera mjög vel
Bjarni kom í pontu í annað sinn og sagði að hann sæti þarna undir langri bunu af rangfærslum.
„Í fyrsta lagi hafa kjör þeirra sem minnst hafa milli handanna af þeim sem fá bætur frá almannatryggingum batnað hraðast á undanförnum árum. Kjör þeirra hafa batnað hraðar en þeirra sem hafa meira á milli handanna en þiggja þó eitthvað úr almannatryggingakerfinu.
Má ég vekja athygli á einni staðreynd? Það er ekkert sjálfsagt að ríki séu í aðstöðu til þess að bæta þeim upp sem ekki hafa náð að nýta starfsævina til að leggja til hliðar eða byggja upp lífeyrisréttindi með jafn myndarlegum hætti og við Íslendingar höfum gert og erum sífellt að bæta í. Það er ekki sjálfsagt. En á sama tíma og við erum að gera það erum við líka, þeir sem eru núna á vinnumarkaði, að greiða fyrir ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar fyrri ára. Það erum við að gera á hverju ári. Við erum að borga 7 til 8 milljarða á ári og munum gera núna í 30 til 35 ár. Þar fyrir utan eru vinnandi einstaklingar í dag að taka á sig að leggja til hliðar þannig að enginn annar þurfi að taka til eftir þá. Ofan á allt þetta erum við að fjármagna almannatryggingar. Þannig að ég segi: Þegar á heildina er litið erum við að gera mjög vel,“ sagði ráðherrann að lokum.