„Bitcoin-bólan bólgnar nú sem aldrei fyrr. En er þetta bóla? Margir töldu internetið bólu en sú bóla er alla vega orðin nauðsynlegur hluti af lífi mínu. Hvort sem Bitcoin reynist bóla eða ekki er alger óþarfi að stjórnvöld fari á taugum og vilji koma böndum yfir Bitcoin eða aðrar rafmyntir og banna þær.“
Þetta sagði Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær.
Telur hún að eðlilegra væri að Alþingi trygg skýran og einfaldan lagaramma utan um alla atvinnustarfsemi.
Þingmaðurinn sagði að auðvitað ætti að fylgjast grannt með þróun rafmynta. „Ef einhverjar holur eru í lögum okkar þegar að rafmyntum kemur þarf að bregðast við því. En göngum ekki fram af hræðslu, boðum og bönnum eins og það sé okkar hér að stýra öllu sem gerist í samfélaginu.“
Spurði hún enn fremur hvers vegna, þegar talað er fyrir því að banna eigi námugröft eftir slíkum myntum, að það sé sóun á orku. „Sóunin er allavega ekki meiri en svo að rafmyntin Bitcoin hefur hækkað um 75 prósent frá áramótum. Sóunin er ekki meiri en svo að hinn frægi frumkvöðull Elon Musk, stofnandi Teslu, hefur keypt myntina fyrir um 1,5 milljarða dollara og allavega fimm fyrirtæki á Fortune 500 listanum hafa gert það sama,“ sagði Bryndís.
Benti hún á að sumir vildu alls ekki að orkan væri nýtt í álframleiðslu og að þá væri sniðugt að nýta hana í gagnaver. „Við þurfum jú öll á stafrænum skýjum að halda. En eigum við allt í einu núna að segja: Nei, það má ekki grafa eftir rafeyri.
Forseti. Ég segi nei. Látum fólk og fyrirtæki í friði og treystum þeim til að gera það sem þau telja best, innan skýrs lagaramma,“ sagði þingmaðurinn að lokum.