Á Íslandi eru um 26 þúsund kílómetrar af vegum, sem samsvarar um 40 metra vegspotta á hvern einasta íbúa landsins. Þetta er mikið, sem helgast af því að Íslendingar eru lítil þjóð í hlutfallslega stóru landi. Til samanburðar eru metrarnir einungis um sjö á hvern íbúa í Þýskalandi.
Uppsöfnuð viðhaldsþörf í þessu víðfema vegakerfi Íslands er metin á um 160-180 milljarða króna eða yfir 450 þúsund krónum á hvern 40 metra vegspotta á Íslandi, samkvæmt nýrri skýrslu um innviði á Íslandi, sem Samtök iðnaðarins unnu í samstarfi við Félag ráðgjafarverkfræðinga.
Sambærileg skýrsla var gefin út árið 2017 og viðhaldsþörfin í vegakerfinu hefur aukist töluvert síðan þá. Nú er viðhaldsþörf vegakerfisins langveigamesti þátturinn í alls um 420 milljarða uppsafnaðri viðhaldsþörf þeirra innviða landsins sem greiningin í skýrslunni frá SI tekur til.
Skýrsluhöfundar meta því uppsafnaða viðhaldsþörf innviða landsins á um 14,5 prósent af árlegri landsframleiðslu.
Þörf á meiri opinberri fjárfestingu að mati skýrsluhöfunda
Í skýrslunni er sett fram ákall til stjórnvalda um að beita slagkrafti sínum enn meira en boðað hefur verið undanfarin misseri. Betur má ef duga skal, segja skýrsluhöfundar og bæta við að fyrirhuguð aukning í opinberri fjárfestingu muni lítið bíta á þeirra uppsöfnuðu viðhaldsþörf sem skapaðist í kjölfar síðustu niðursveiflu.
„Til þess að ástand innviða geti talist gott verður að setja enn meiri kraft í opinbera fjárfestingu í innviðum. Með fjárfestingu í innviðum er fjárfest í hagvexti framtíðarinnar. ,“ segir í skýrslunni.
Vegakerfið ekki í nógu góðu standi
Sérstakar áhyggjur eru settar fram af ástandi þjóðvegakerfisins. Segir í skýrslunni að stórir hlutar þess uppfylli ekki lágmarksviðmið sem lúta að hrönun slitlags, hjólfaradýpt, sprungumyndun, kantskemmdum og holumyndun og fleiri þáttum.
„Ef fer fram sem horfir verður erfitt að uppfylla ítrustu gæðakröfur til framtíðar m.t.t. öryggis, aðgengis og umferðarflæðis,“ segja skýrsluhöfundar, sem sjá ekki útlit fyrir það að nægilegu fjármagni verði veitt til viðhaldsverkefna í þjóðvegakerfinu til þess að bæta ástandið á tímabili núverandi samgönguáætlunar. Uppsafnaður vandi vegna endurnýjunar á bundnu slitlagi sé verulegur.
Fráveitur, flutningskerfið, fasteignir
Fyrir utan vegakerfið eru ýmsir aðrir innviðir þar sem viðhaldsþörfin er metin mikil. Talið er að hún nemi á bilinu 50-85 milljörðum króna hvað fráveitukerfi landsins varðar og um 53 milljörðum hvað flutningskerfi raforku varðar.
Í umfjöllun um þessa innviðaflokka í skýrslunni kemur þó fram það mat skýrsluhöfunda að útlit sé fyrir að saxað verði á uppsafnaða viðhaldsþörf með boðuðum framkvæmdum á næsta áratug.
Hvað fasteignir varðar er samanlögð uppsöfnuð viðhaldsþörf fasteigna í eigu hins opinbera metin á um 71 milljarð króna, 46 milljarðar hjá ríkinu og 25 milljarðar hjá sveitarfélögum landsins.