Fjármagnskostnaður ríkissjóðs jókst mikið á síðasta ári vegna aukinnar lántöku og mikillar verðbólgu í fyrra. Ríkisendurskoðun segir efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í yfirstandandi kreppu vera kostnaðarsamar og að leita þurfi allra leiða til hagræðingar og aukinnar skilvirkni í ríkisútgjöldum til að standa undir þeim.
Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu stofnuninnar um áhrif heimsfaraldursins á ríkisfjármál. Samkvæmt henni var halli ríkissjóðs áætlaður á 270 milljörðum króna í fyrra og búist er við að hann nemi 264 milljörðum króna í ár.
Þetta eru mikil viðbrigði frá árinu 2019, þar sem ríkissjóður var rekinn með 42 milljarða króna afgangi, og árinu 2018, þegar afgangurinn nam 84 milljörðum króna. Mögulegt er að hallinn verði enn meiri, þar sem eftir á að koma í ljós hvaða áhrif tekjufall margra opinberra fyrirtækja, líkt og Isavia, RÚV og Íslandspósts, muni hafa á ríkissjóð.
Meiri kostnaður vegna hærri verðbólgu
Fjármagnskostnaður ríkissjóðs var einnig 40 milljörðum krónum meiri á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs en á sama tíma árið 2019. Nær alla hækkunina má rekja til verðtryggðra langtímalána sem ríkið hefur tekið, en mikil verðbólga í fyrra leiddi til þess að svokallaður verðbótaþáttur lánanna hækkaði um 40 milljarða.
Meirihluti fjármagnskostnaðar ríkissjóðs í fyrra var vegna verðbóta á verðtryggðum lánum, en til samanburðar námu verðbæturnar einungis 11 prósentum af fjármagnskostnaði árið 2019.
Samkvæmt Ríkisendurskoðun bíður stjórnvalda mikil áskorun á komandi árum við að draga úr hallarekstri og greiða niður skuldir til að endurheimta jafnvægi í efnahagsmálum. Stofnunin bætir við að ríkissjóður gæti haft takmarkað svigrúm til annarra útgjalda ef vextir eða verðbólga hækkar eða gengi krónunnar veikist mikið á næstunni.
„Telur Ríkisendurskoðun að áfram verði að leita allra leiða til hagræðingar og aukinnar skilvirkni á útgjaldahlið ríkisfjármálanna samhliða mótvægisaðgerðum til stuðnings heimilum og fyrirtækjum,“ segir enn fremur í skýrslunni. „Efnahagsúrræði stjórnvalda eru hugsuð sem tímabundnar ráðstafanir en ljóst má vera að þanþol ríkissjóðs er takmörkunum háð þegar fram í sækir.“