Sala ríkisins á eignarhlut sínum í Íslandsbanka gæti leitt til enn frekari stækkunar Landsbankans, þar sem samkeppni um arðgreiðslur gætu minnkað bankastarfsemi einkabanka. Þetta segir Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum, í grein í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem birtist núna á föstudaginn.
Í greininni, sem fjallar um samspil samfélagsins og markaðarins, fer Ásgeir einnig yfir möguleg áhrif bankasölunnar á samfélagið. Þar minnist hann á nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um söluna, en í því er krafist að stuðlað verði að aukinni samkeppni á markaði við útboð og skráningu bankans á hlutabréfamarkaði.
Ásgeir segir þó óljóst hvernig salan muni gera það, en nefndin skýri það ekkert frekar í áliti sínu. Þá minnist hann á skráningu Arion banka á markaði, sem hann segir að hefur aukið möguleika á arðgreiðslum til hluthafa með því að draga úr starfsemi sinni og þar með minnkað samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði. Þannig hafi útlán ekki aukist hjá þeim banka, á meðan ríkisbankarnir tveir hafi aukið sín útlán verulega.
Ásgeir Brynjar segir bankann virðist hafa tekið þessa ákvörðun til að minnka sig og losa þannig um eigið fé til að geta greitt það til hluthafa, og vitnar hann í grein Gylfa Magnússonar í Stundinni, sem fjallaði um sama mál.
„Erfitt er að sjá að skráning á hlutabréfamarkað, eins og nú er unnið að, leiði til frekari samkeppni, nema þá mögulega samkeppni um að greiða meiri arð til hluthafa með lækkun eigin fjár og með því að stunda minni bankastarfsemi,“ bætir Ásgeir Brynjar við í greininni. „Samfélagsleg áhrif þess eru óljós, en mögulega stækkar þá eini hreinræktaði ríkisbankinn enn meira ef marka má nýlegar sögulegar talnaupplýsingar.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.