Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur staðfesti á fundi sínum í vikunni ákvörðun borgarráðs um að stofna nýja Dýraþjónustu Reykjavíkur til þess að fara með málefni hunda og katta í borginni, bæði gæludýra og þeirra sem eru villt.
Með þessari ákvörðun er Hundaeftirlit Reykjavíkur lagt niður og málefni katta flutt frá meindýraeftirliti borgarinnar til hinnar nýju dýraþjónustu, sem fengið hefur nafnið DÝR og verður með starfsstöð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Hundagjöldin lækkuð til þriggja ára í von um aukna skráningu
Borgaryfirvöld byggja þessa ákvörðun á tillögum starfshóps, sem skoðaði málefni hunda og katta og taldi að hagkvæmni myndi nást fram með því að færa alla þjónustu við dýrin á einn stað. Væntingar eru uppi um að að fleiri hundaeigendur skrái dýrin sín eftir þessar breytingar, en samhliða stofnun DÝR er gjald fyrir að skrá nýjan hund lækkað um rúm 40 prósent og árlegt þjónustu- og eftirlitsgjald um 50 prósent.
Gjald fyrir skráningu hunds verður 11.900 krónur í stað 20.800 króna áður og árlega þjónustugjaldið fer úr 19.850 krónum í 9.900 krónur. Áfram mun kosta 30.200 krónur að láta hundaeftirlitsmenn borgarinnar handsama óskráðan hund.
Lækkun gjaldsins er tilraunaverkefni til þriggja ára, en skráðum dýrum þarf að fjölga um 80 prósent á því tímabili til að reikningsdæmið gangi upp og hundagjöldin standi undir hundaeftirlitshluta Dýraþjónustu Reykjavíkur.
Með breytingunum sem gerðar hafa verið er hundahald formlega leyft í Reykjavík. Í bókun meirihluta borgarráðs frá 4. febrúar segir að á um 40 prósent heimila í Reykavík búi gæludýr og að með þessum breytingum vilji meirihlutinn „gera dýrum og gæludýraeigendum hærra undir höfði,“ enda séu dýr mikilvægur hluti af borgarsamfélagi.
Telja hundaleyfi og -gjöld „tímaskekkju“
Ekki var full samstaða um þessa breyttu gæludýrastefnu innan borgarráðs og síðan borgarstjórnar. Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn breytingum í borgarráði og í bókunum í fundargerðum borgarinnar má lesa að fulltrúar hans og Flokks fólksins telji sérstakar leyfisveitingar fyrir hunda tímaskekkju.
„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna lækkun hundaeftirlitsgjalds en myndu heldur vilja að gjaldið yrði að fullu fellt niður og hundaeftirlit Reykjavíkur lagt niður. Hundaeigendur hafa ekki notið þjónustu í skiptum fyrir hundaeftirlitsgjald borgarinnar og telja innheimtuna því óréttmæta gjaldtöku,“ segir í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks.
Þeir sögðu einnig að örmerkjaskráningar hundaeigenda í landlægan gagnagrunn ættu að fela í sér nægilega skráningu og bentu á að í Bretlandi og í öðrum norrænum ríkjum hefði sveitarfélög lagt niður sína skráningarskyldu eftir að landlægir örmerkjagagnagrunnar komu til sögunnar.
„Hið opinbera þarf ekki að sinna sérstöku eftirliti eða skrásetningum hunda enda hafa borgarbúar og einkaframtak tekið sér þessi verkefni í hendur með farsælum hætti hérlendis,“ segir í bókuninni.
Sagði hundaeftirlitsmenn hafa „lítið sem ekkert að gera“
Kolbrún Baldursdóttir áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í borgarráði sagði það úrelt fyrirkomulag að vera að fylgjast sérstaklega með hundahaldi í Reykjavík. Í bókun hennar segir að hundaeftirlit borgarinnar sé óþarfi. Aðeins 8 hundar hefðu verið vistaðir í geymslu árið 2018 og kvörtunum fækkað niður í nokkra tugi árlega.
„Samt sem áður hefur starfsgildum ekki fækkað sem er léleg nýting á fjármunum hundaeigenda. Að hundaleyfisgjöldin standi ekki undir kostnaði stenst ekki skoðun því ástæðan er launakostnaður starfsmanna sem hafa lítið sem ekkert að gera og sinna tilgangslausum verkefnum,“ segir í bókun Kolbrúnar frá 4. febrúar.
Hún sat hjá við endanlega afgreiðslu málsins í borgarstjórn í liðinni viku og gagnrýndi á ný að verið væri að halda skrá yfir hunda og hundaeigendur.
„Hundaeigendur standa einir undir öllum kostnaði við dýraeftirlit í borginni. Hundaeigendur sjá um sig sjálfir enda eru þeir öflugir á samfélagsmiðlum og fljótir til að aðstoða hvern annan ef upp koma vandamál. Hundar valda sjaldan tjóni og hægt er að tryggja hunda hjá tryggingarfélögum. Hundaeftirlitsgjaldið er ekkert annað en refsiskattur sem lýsir fordómum,“ segir í bókun Kolbrúnar frá því á þriðjudag.