Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Teatime sagði upp öllum starfsmönnum sínum síðastliðinn föstudag. Fyrirtækið hefur nú hætt allri starfsemi, en samkvæmt forstjóra fyrirtækisins eru gjaldþrotaskipti yfirvofandi. Þetta kom fram í frétt á vef Stundarinnar fyrr í dag.
Í fréttinni var rætt við Þorstein B. Friðriksson, eins af stofnendum Teatime. Þorsteinn stofnaði einnig leikjafyrirtækið Plain Vanilla árið 2010, en það fyrirtæki hætti rekstri sínum árið 2016 vegna vandræða við að afla tekna. Ári seinna stofnaði hann svo Teatime, ásamt öðrum fyrrverandi eigendum og lykilstjórnendum Plain Vanilla.
Líkt og Plain Vanilla sérhæfði Teatime sig í hönnun og markaðssetningu smáforrita á snjalltækjum. Fyrirtækið gaf út spurningaleik síðasta sumar undir nafninu Trivia Royal, en að sögn Þorsteins náði hann ansi miklum vinsældum í Bandaríkjunum. Hins vegar hafi tekjurnar úr leiknum ekki verið nægar til að standa undir rekstri fyrirtækisins. „Það gekk bara ekki upp og við þurfum að loka, jafn leiðinlegt og það er,“ segir Þorsteinn í viðtali við Stundina.
Tekjuöflun var einnig helsta vandamál Plain Vanilla, en það fyrirtæki náði ekki að afla tekna í gegnum helstu vöruna sína, sem var spurningaleikurinn QuizUp. Um mitt ár í fyrra var leikurinn efstur á vinsældarlista App Store í Bandaríkjunum yfir ókeypis leiki og var vinsælli en smáforrit eins og Instagram og TikTok.