Verðbólgan á Íslandi var mest allra Norðurlanda í síðasta mánuði og í þriðja sæti fyrir öll Evrópulönd sem hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, mælir. Þetta kemur fram í nýlegum tölum frá hagstofunni sem birtust á síðu hennar fyrr í vikunni.
Samkvæmt tölunum náði verðbólgan hér á landi 3,4 prósentum í janúar. Þetta er rúmlega tvöfalt meiri verðhækkun milli janúarmánaða en á hinum Norðurlöndunum, en í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Danmörku var verðbólgan að meðaltali 1,5 prósent í síðasta mánuði.
Meðalverðbólga meðal aðildarríkja Evrópusambandsins var enn lægri, en hún náði 1,2 prósentum í janúar, líkt og sjá má á mynd hér að neðan. Þar sést verðbólgan hjá öllum 33 Evrópulöndum sem Eurostat mælir, en á meðal þeirra stóð verðvísitalan nánast í stað í fyrra í níu löndum og lækkaði í fimm löndum.
Langmest var verðhækkunin í Tyrklandi, en þar náði verðbólgan 15 prósentum í síðasta mánuði. Ef það land, sem er einungis að hluta til evrópskt, er tekið úr samanburðinum trónir Pólland á toppi listans með 3,6 prósent verðbólgu. Ísland er svo ekki langt á undan með sín 3,4 prósent í ársbyrjun.
Evrópusambandið mælir verðbólgu sem tólf mánaða breytingu á samræmdri vísitölu neysluverðs (HICP), sem er nokkuð frábrugðin vísitölu neysluverðs (CPI) sem Hagstofa Íslands notar til að mæla verðbólgu hérlendis. Því er verðbólgan samkvæmt Eurostat nokkuð lægri en sambærilegar mælingar Hagstofu.
Samkvæmt Hagstofu náði verðbólgan 4,3 prósentum í janúar en lækkaði niður í 4,1 prósent í febrúar.