Samdráttur í landsframleiðslu náði 6,6 prósentum í fyrra að raungildi og 5,1 prósenti á síðasta ársfjórðungi. Þetta kemur fram í þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands sem birtust fyrr í dag.
Þetta er nokkuð minni samdráttur en Seðlabankinn áætlaði í síðustu peningamálum, sem birtust síðastliðinn janúar, en þar spáði bankinn að samdrátturinn í fyrra hefði náð 7,7 prósentum. Sömuleiðis áætlaði Íslandsbanki að samdrátturinn hefði náð 7,9 prósentum í fyrra í síðustu þjóðhagsspá sinni sem birtist í janúar.
Vægi ferðaþjónustunnar rúmlega helmingaðist
Samkvæmt Hagstofu vó samdráttur í útflutningi þyngst í þjóðhagsreikningunum, en hann dróst saman um rúm 30 prósent. Þessi samdráttur er að mestu leyti tilkominn vegna hruns í ferðaþjónustunni hérlendis í kjölfar heimsfaraldursins, en áætlað er að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 3,5 prósent á árinu 2020 borið saman við 8 prósent árið 2019.
Á móti vegur þó að innflutningur dróst einnig saman töluvert, eða um 22 prósent. Samdráttur í innflutningi hefur jákvæð áhrif á landsframleiðslu, þar sem hann merkir minna útstreymi fjármagns úr landi.
Lítill samdráttur í einkaneyslu
Miklar takmarkanir á verslun og þjónustu vegna sóttvarnarráðstafana leiddi ekki til mikils samdráttar í einkaneysl, en hann náði 3,3 prósentum. Þetta er minni samdráttur en Seðlabankinn áætlaði í síðasta mánuði, en hann gerði ráð fyrir 4,4 prósenta samdrætti í fyrra.
Aukning í nokkrum útgjaldaflokkum í einkaneyslu vó að verulegu leyti upp mikinn samdrátt í öðrum, samkvæmt Hagstofu. Þannig er til að mynda áætlað að einkaneysluútgjöld vegna kaupa á húsgögnum og öðrum heimilisbúnaði hafi aukist að raungildi um 7,6% a árinu 2020 og útgjöld vegna kaupa á áfengi og tóbaki um 10,8%.
Fjárfesting skreppur saman
Þrátt fyrir yfirlýst áform ríkisstjórnarinnar um fjárfestingarátak í fyrra dróst fjárfesting hins opinbera um 9,3 prósent á árinu. Þetta er meiri samdráttur en hjá einkaframtakinu, en hann náði 8,7 prósentum á árinu. Sömuleiðis dróst íbúðafjárfesting um 1,2 prósent.