Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, vill ekki tjá sig að sinni um símtöl dómsmálaráðherra til sín á aðfangadag, í kjölfar þess að Ásmundarsalsmálið svokallaða kom upp. Ástæðan er sú að málið er komið til meðferðar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Þetta kom fram í upphafi viðtals Fanneyjar Birnu Jónsdóttur við Höllu Bergþóru í Silfri dagsins á RÚV.
Nýverið opinberaði RÚV að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefði hringt tvívegis í Höllu Bergþóru á aðfangadag 2020 í kjölfar þess að lögreglan hafði greint fjölmiðlum frá því að „háttvirkur ráðherra“ hefði verið staddur í samkvæmi í Ásmundarsal kvöldið áður, þar sem grunur er um að sóttvarnarbrot hafi verið framið. Umræddur ráðherra reyndist vera Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra. Áslaug Arna sagði í liðinni viku við RÚV að samtöl hennar við lögreglustjórann hafi verið vegna spurninga sem hún hafði um verklag og upplýsingagjöf. Að öðru leyti hafi hún ekki rætt umrætt mál við lögreglustjórann og „ekki haft afskipti af rannsókn þessa máls eða annarra.“
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, fór fram á það í vikunni við Jón Þór Ólafsson, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, að Áslaug Arna kæmi á fund nefndarinnar við fyrsta tækifæri.
Málið enn til meðferðar hjá lögreglu
Ásmundarsalsmálið snýst um að í dagbók lögreglunnar að morgni aðfangadags 2020 hafi komið fram að milli 40-50 manns hafi verið staddir í Ásmundarsal á Þorláksmessu eftir að búið hafi verið átt að rýma salinn samkvæmt sóttvarnarreglum.
Í samkvæminu voru fjarlægðarmörk og grímuskylda enn fremur ekki virt og ölvun gesta verið talsverð. Fólk hefði jafnvel faðmast og kysst í kveðjuskyni eftir að samkvæmið var leyst upp.
Á meðal gesta reyndist vera Bjarni Benediktsson. Hann sagði í viðtölum eftir að málið komst í hámæli að hann teldi ekki ástæðu til að segja af sér ráðherraembætti vegna málsins.
Þegar greint var frá því að formleg rannsókn væri hafin á samkomunni, þann 30. desember í fyrra, sagði í tilkynningu frá lögreglu að rannsóknin fæli meðal annars í sér að yfirfara upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna með tilliti til brota á sóttvörnum. Rannsókninni lauk seint í janúar og málið var í kjölfarið sent til ákærusviðs sem tekur ákvörðun um það hvort að sektarboðum verði beitt eða hvort ekki þyki ástæða til þess. Þar er málið enn til meðferðar.