Laun og launatengd gjöld á hverja unna vinnustund jukust um 5,6 prósent í fyrra, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Hækkunin er rétt undir meðaltali síðustu 13 ára, en á sama tíma hækkaði launavísitalan að meðaltali um rúm sex prósent í fyrra.
Laun á vinnustund hækkuðu minnst í fjármálakreppunni árið 2009, en þá nam hækkunin 2,4 prósent. Á sama tíma hækkaði launavísitalan þá um 3,9 prósent. Þróunina má sjá á mynd hér að neðan.
Seðlabankinn minntist á þróunina í síðasta hefti Peningamála sem birtist í janúar, en samkvæmt því hækkuðu staðgreiðsluskyld laun á vinnustund um 1,8 prósent á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs. Það var nokkuð minni hækkun en búist var við síðasta haust.
Bankinn spáði þá að laun á vinnustund hefðu hækkað um 2 prósent í fyrra og niðurfærði spá sína þar sem vinnustundir voru fleiri í fyrra en búist var við. Bankinn spáði einnig svipaðri þróun í ár og bjóst við að hækkunin myndi nema rúmum 3 prósentum.
Laun á vinnustund eru reiknuð með því að deila árstölum launa og launatengdra gjalda úr framleiðsluuppgjöri Hagstofunnar með tölum um heildarfjölda vinnustunda úr vinnumarkaðsrannsókn hennar.
Uppfært kl. 16:19: Hagstofan hefur gefið út að villa hafi komið upp í framleiðsluuppgjöri sínu, sem gætu haft áhrif á þessar tölur. Unnið er að leiðréttingu, en búist er við að þeirri vinnu ljúki fyrri part næsta dags.
Athugasemd ritstjórnar 9. mars: Nýjar tölur Hagstofu benda til þess að laun á hverja vinnustund hafi hækkað um 5,6 prósent, í stað 0,2 prósenta. Efni fréttarinnar hefur því verið breytt eftir því.