Heilbrigðisráðuneytið segist gera alvarlegar athugasemdir við málflutning Helgu Völu Helgadóttur formanns velferðarnefndar Alþingis í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Ráðuneytið hefur komið athugasemdum sínum á framfæri bréflega og sent frá sér tilkynningu um málið.
Af tilkynningu ráðuneytisins má ráða að það telji Helgu Völu hafa rofið trúnað sem eigi að vera um það sem fram fari á lokuðum nefndarfundum.
„Í þingskaparlögum er afdráttarlaust kveðið á um að trúnaður skuli ríkja um málefni sem rædd eru á lokuðum nefndarfundum. Heilbrigðisráðuneytið verður að geta treyst því að samskipti við velferðarnefnd byggi á heilindum, virðingu fyrir þeim málum sem þar eru til umfjöllunar og að trúnaðar sé gætt líkt og áskilið er í lögum,“ segir ráðuneytið í tilkynningu sinni, sem birtist á vef stjórnarráðsins í hádeginu.
Sagði samskiptavanda loða við Sjúkratryggingar
Í frétt RÚV var fjallað um samskipti Sjúkratrygginga Íslands við sveitarfélög sem reka hjúkrunarheimili, auk þess sem fjallað var um viðræður Sjúkratrygginga við talmeinafræðinga og sjúkraþjálfara.
Helga Vala sagði í frétt RÚV að „því miður“ virtist vera „samskiptavandi milli flestra þeirra sem eru að reyna að ná samningum við Sjúkratryggingar.“
Einnig sagði Helga Vala frá því að komið hefði fram á fundi nefndarinnar að hluti sveitarfélaga landsins væru að nota það fé sem fengist til að reka hjúkrunarheimili í eitthvað annað. „Ég hef ekki heyrt það áður og ég held að það sé fróðlegt að spyrja sveitarfélögin hvort að þetta sé rétt,“ er haft eftir Helgu Völu á vef RÚV.
„Samningaviðræður standa yfir milli Sjúkratrygginga Íslands og fyrrnefndra aðila og bendir ráðuneytið á að ógætileg ummæli í fjölmiðlum um mál sem rædd eru í trúnaði á lokuðum fundi velferðarnefndar geti spillt fyrir þeim viðræðum,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Þar segir einnig að bréf með athugasemdum hafi verið sent til Helgu Völu og afrit af því til forseta Alþingis.