Útflutningur þjónustu var 26,4 milljörðum krónum meiri en innflutningur hennar hér á landi á síðasta ársfjórðungi, samkvæmt nýlegum tölum Hagstofu um þjónustujöfnuð. Nær allur afgangurinn er tilkominn vegna viðskipta í desember, en í þeim mánuði jókst útflutningur þjónustu um rúmlega helming miðað við mánuðinn á undan.
Afgangur vegna viðsnúnings í desember
Samkvæmt nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands var 22,1 milljarða króna afgangur á viðskipti við útlönd á síðasta ársfjórðungi 2020. Stærstan hluta þessa viðskiptaafgangs má rekja til mikils afgangs á þjónustuviðskiptum við útlönd, en hann nam 26 milljörðum króna á tímabilinu.
Þessum mikla afgangi var þó ekki dreift jafnt milli mánaða,samkvæmt tölum Hagstofu um inn- og útflutning þjónustu. Þar sést að virði þjónustuútflutnings var nokkuð lítið á haustmánuðum síðasta árs, en rúmlega tvöfaldaðist svo í desember og náði rúmum 50 milljörðum króna. Aukning þjónustuinnflutnings á sama tíma var mun minni og því stórjókst þjónustuafgangurinn við útlönd í desember.
Af þeim 26,4 milljarða króna þjónustuafgangi á síðasta ársfjórðungi komu 24,4 milljarðar frá viðskiptum í desember, eða . í október var afgangurinn aðeins þrír milljarðar og raunar var halli á þjónustuviðskiptum í nóvember, í fyrsta skiptið í að minnsta kosti tvö ár.
Fallið hefur stórminnkað
Þjónustuútflutningur tók mikla dýfu um leið og sóttvarnaraðgerðir voru fyrst hertar með komu heimsfaraldursins í fyrravor. Ef miðað er við útflutningstölur á sama mánuði árið á undan féllu útflutningstekjur vegna þjónustu um 38 prósent í mars, en fallið nam 58 prósentum í apríl og 63 prósentum í maí árið 2020. Líklegt er að þessi minnkun sé að miklu leyti vegna hruns í komu erlendra ferðamanna til landsins.
Líkt og sést á mynd hér að ofan var rúmlega helmingsfall í þjónustuútflutningi frá apríl til nóvember. Í desember mátti hins vegar greina mikinn viðsnúning, þar sem útflutningstekjurnar jukust úr 24 milljörðum króna í 52 milljarða króna mánuðinn á undan. Þá var útflutningurinn “einungis” 23 prósentum minni heldur en í sama mánuði árið 2019.