„Þær hugmyndir sem fram hafa komið á undanförnum árum, um að byggja Alexandersflugvöll upp sem varaflugvöll fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli, eru með öllu óraunhæfar,“ að mati Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), sem hefur skilað inn umsögn um þingsályktunartillögu Miðflokksins um málið.
Miðflokkurinn leggur til, og ekki í fyrsta sinn, að samgöngumálaráðherra láti kanna kosti þess að byggja upp Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók sem varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll.
Tillaga í þessa áttina var fyrst lögð fram af Gunnari Braga Sveinssyni og fleiri þingmönnum ýmissa flokka árið 2013 og árið 2015 lagði Ásmundur Einar Daðason sambærilega tillögu fram, með stuðningi fleiri þingmanna Framsóknarflokksins.
Þetta mál klofnaði frá Framsóknarflokknum er Miðflokkurinn var stofnaður. Síðan þá hafa þingmenn flokksins haldið málinu á lofti og lagt það fram á þingi haustið 2017, veturinn 2018, haustið 2018, haustið 2019 og á ný síðasta haust.
Vert er að taka fram að Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA og varaþingmaður Miðflokksins, er ekki skrifaður fyrir umsögn FÍA um málið heldur er það Ingvar Tryggvason formaður öryggisnefndar FÍA.
Ekki grundvöllur fyrir reglulegu flugi
Félag íslenskra atvinnuflugmanna segir það rétt sem fram komi í greinargerð þingflokksins, að Skagafjörður sé breiður, aðflugið gott og völlurinn vel staðsettur veðurfarslega. Hið sama megi þó segja um marga aðra flugvelli.
„Vandinn felst í því að ekki er grundvöllur fyrir reglubundnu áætlunarflugi stórra véla til vallarins, þannig að þeir innviðir og tækjabúnaður sem þyrfti til að sinna ætluðu hlutverki stæðu ónotaðir frá degi til dags,“ segir í umsögn FÍA.
Þar er vísað til þess að árið 2018 sendi lögfræðingur Isavia inn umsögn til þingsins þar sem fram kom að framkvæmdirnar myndu kalla á 4-5 milljarða króna fjárfestingu. Slíkt telur FÍA ekki raunhæft, á meðan að mikil fjárfestingarþörf sé á öðrum flugvöllum landsins.
Flugmannafélagið vísar til nýlegrar skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um innviði á Íslandi, sem kynnt var 17. febrúar. Í þeirri skýrslu kom fram að bæði á Reykjavíkurflugvelli og Egilsstaðaflugvelli væri komið að endurnýjun malbiks á flugbrautum, auk þess sem setja þyrfti upp aðflugsljós á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík til þess að uppfylla Evrópureglugerðir.
„Það er sannarlega fagnaðarefni er þingmenn láta sig flug- og flugvallamál varða. ÖFÍA vill góðfúslega benda þingheimi á að sá alvarlegi vandi sem steðjar að okkur kemur skilmerkilega fram í minnisblaði sem Isavia sendi Alþingi í tengslum við samgönguáætlun haustið 2018.
Þannig hefur uppsöfnuð vanfjárfesting í flugvallakerfinu verið áætluð um 2 milljarðar og mörg brýn verkefni á borðinu sem þola vart bið á þeim flugvöllum sem eru í reglubundinni notkun.
Að öllu samanlögðu, mælum við með því að uppbyggingu Alexandersflugvallar verði frestað þangað til raunhæft tilefni skapst og stjórnvöld hafa náð utan um þann alvarlega vanda sem er til staðar á þeim flugvöllum sem eru nú þegar í reglubundinni notkun,“ segir í umsögn FÍA.
Sveitarfélagið styður málið og telur áhrifin á ferðaþjónustu jákvæð
Rétt eins og undanfarin ár hefur Sveitarfélagið Skagafjörður skilað inn jákvæðri umsögn um málið. „Byggðarráð styður málið og vill árétta að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á uppbyggingu Alexandersflugvallar sem varaflugvallar vegna góðra lendingarskilyrða og landfræðilegrar legu flugvallarins,“ segir í bókun byggðaráðs frá 21. febrúar sem send var til Alþingis sem umsögn.
Segir í bókuninni að óumdeilt sé að lendingarskilyrði á Alexandersflugvelli séu með því besta sem gerist á landinu og að þeir dagar þar sem völlurinn lokar vegna veðurskilyrða séu fátíðir. Slíkt myndi heyra til undantekinga með bættum vallarbúnaði. „Jafnframt er Ijóst að uppbygging vallarins myndi hafa veruleg jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi öllu,“ segir byggðaráðið.